Ríkisstjórnin og stuðningslið hennar á Alþingi geta ekki yppt öxlum út af tregðu lánastofnana við að endurreikna ólögmæt gengislán. Hvað eftir annað skera dómstólar úr álitamálum. Alltaf segja einhverjir bankar, að úrskurðir dómstóla eigi ekki við sig. Þess vegna þurfi ný og ný prófmál. Þessi hegðun gengur alls ekki. Samt eru bankastjórar skipaðir af stjórnvöldum og eftirlit með bönkunum skipað af stjórnvöldum. Nú er komið nóg af græðgisrugli banka. Kominn er tími til að reka bankastjóra, stjórnendur bankasýslunnar og fjármálaeftirlitsins. Stjórnvöld geta ekki þótzt vera áhorfandi úti í bæ.