Svarta skákhaustið.

Greinar

Komið hefur í ljós, að réttar voru efasemdir Dagblaðsins í sumar um, að fjölskyldu Kortsjnojs skákmeistara yrði sleppt úr prísund Sovétríkjanna. Þá taldi blaðið, eitt íslenzkra fjölmiðla, ekki tímabært að fagna úrslitum.

Allir íslenzkir fjölmiðlar aðrir, sem fjölluðu um málið, töluðu um unninn sigur Friðriks Ólafssonar. Staðreyndin er hins vegar sú, að samningamenn Sovétríkjanna komu krók á móti bragði forseta Alþjóða skáksambandsins.

Friðrik er þegar búinn að sætta sig við tilhugsunina um, að einvígi Kortsjnojs og Karpovs um heimsmeistaratitilinn í Merano á Ítalíu verði haldið upp á hin glæpsamlegu býti, sem Sovétríkin telja sér nauðsynleg til sigurs.

Í öllum alþjóðlegum keppnisgreinum öðrum en skák er til siðs, að útgerðarmenn annars aðilans haldi ekki fjölskyldu hins í gíslingu. Og þrátt fyrir forsæti Friðriks hefur hinn illi andi Sovétríkjanna áfram svifið yfir vötnum sambandsins.

Heimsmeistaraeinvígi í skák, þar sem menn Karpovs halda fjölskyldu Kortsjnojs í gíslingu, er marklaust einvígi. Það er bara skrípaleikur, til skammar öllum þeim, sem að standa, sér í lagi Alþjóða skáksambandinu.

Hið eina siðlega, sem nú er hægt að gera í málinu, er að aflýsa einvíginu og fella á meðan niður heimsmeistaratitil Karpovs, ef fjölskylda Kortsjnojs hefur ekki verið leyst úr haldi Sovétríkjanna í tæka tíð.

Ofbeldishneigð Sovétríkjanna hættir að vera sovézkt innanríkismál, þegar hún er farin að svívirða leikreglur á alþjóðlegum vettvangi. Sovézk lög eru sovézk lög, en alþjóðleg keppni á ekki að fara eftir lögum einstakra landa.

Ef drengskapur í leik fær ekki að ráða í alþjóðlegri keppnisgrein vegna sérþarfa Karpovs og Sovétríkjanna, er betra að Ísland og Íslendingar séu ekki aðilar að skipulagi. Þá er betra að láta leppana eiga það.

Skáksambandi Íslands er til skammar, hversu slælega það hefur stutt við bak Friðriks í varnarstríði hans. Að baki formlegs stuðnings þess hefur ekki verið nein innri sannfæring, enda er það hallt undir Sovétríkin.

Sérstaklega svívirðilegur var samanburður í Þjóðviljanum á takmörkun ferðafrelsis Ingimars Jónssonar til Bandaríkjanna og gíslingu Kortsjnoj-fjölskyldunnar. Það er nefnilega töluverður eðlismunur á orðunum inn og út.

Enginn vafi er á, að Kortsjnoj og fjölskylda hans munu sætta sig við að fá aldrei að fara til Sovétríkjanna. Það er alls ekki sama að vilja komast úr prísund og vilja komast inn í hana. En svona er þó reynt að snúa út úr.

Einnig eru ódrengilegar hinar sífelldu dylgjur hér á landi um, að Kortsjnoj sé maður vanþakklátur, skapstirður og hefnigjarn. Allir menn eiga sama rétt, þótt einhverjir slúðrarar telji suma menn leiðinlegri en aðra.

Ennfremur er orðið tímabært að hætta tilvísun til einhverra ótiltekinna formsatriða, sem ekki hafi verið fullnægt í fyrri tilraunum til að fá fjölskyldu Kortsjnojs úr haldi. Af slíku tali er megnasta ólykt.

Því miður var ójafnt makkið að tjaldabaki í Alþjóða skáksambandinu. Friðrik hefur farið halloka fyrir gagnsókn Baturinskis hins sovézka. Framundan er svarta haustið í skákinni, nema nú verði fórnað til sigurs.

Jónas Kristjánsson

Dagblaðið