Beðið um rólega festu.

Greinar

Ísal ætti að hagnast verulega, þótt raforkuverð væri þrefalt eða fjórfalt hærra en það er nú. Það fær kílówattstundina á um það bil 0,6 cent á sama tíma og álver annars staðar borga allt upp í 5 cent eða næstum tífalt meira.

Samkvæmt samningum við Alusuisse á Ísal að fá súrál og rafskaut á samkeppnishæfu verði og á, með sérstakri þóknun til Alusuisse, að fá bezta verð fyrir afurðir sínar. Ef við þetta hefði verið staðið, væri Ísal ofsagróðafyrirtæki.

Ekki er launakostnaður Ísals meiri en annarra álvera, því að sjálfvirkni er hér óvenju mikil. Fjármagnskostnaður getur ekki verið óvenjulega hár, hví að Ísal hefur fengið tíma til afskrifta. Ekkert ætti því að skyggja á reksturinn.

Á eftir súráli er raforka stærsti kostnaðarliður álvera. Hið ofboðslega lága orkuverð til Ísals ætti því að koma fram í gífurlegum hagnaði þess og hlutfallslegum opinberum gjöldum. En hagnaðurinn hvarf í bókhaldinu.

Ekki er nýtt, að fyrirtæki reyni að spara skatta. Það er eitt verkefni stjórnvalda að sjá um, að ekki sé undan skotið. Enginn þarf að fara upp á háa sé, þótt ráðuneyti geri háar kröfur og álmenn geri lítið úr þeim.

Það kemur smám saman í ljós, hvort eða hversu langt bókhaldsbrögðin duga til að koma tekjum undan skattlagningu á Íslandi. Um það gilda ákvæði í samningi, en ekki neinir úrskurðir af hálfu Morgunblaðs og Þjóðvilja.

Hitt skiptir okkur meira, að gera okkur grein fyrir, að orkuverðið til Ísals er gersamlega út í hött. Upphaflega átti það að duga til að afskrifa orkuver á borð við Búrfellsvirkjun, en mundi ekki duga til að afskrifa nýja virkjun.

Ísland er í svipaðri aðstöðu og kaupmaður í verðbólgu, sem vill fá hækkaða álagningu, svo að vörubirgðir hans haldist ekki aðeins óbreyttar í krónutölu, heldur í raunverulegu magni, en fær ekki áheyrn verðlagsstjóra.

Kostnaður við gerð orkuvera hefur hækkað í töluverðu hlutfalli við hækkun olíuverðs og almenns orkuverðs í heiminum. Stofnkostnaður orkuvera er að miklu leyti erlendur. Og innlendi kostnaðurinn breytist líka eftir orkuverði.

Við getum auðvitað kennt okkur sjálfum um, að hafa ekki í upphafi samið við Alusuisse um orkuverð, sem hefði eitthvert samhengi við orkuverð í umheiminum eða við breytingar á því. Við kunnum ekki að semja í þá daga.

Hins vegar mælir ekkert á móti því, að viðræður um undandrátt opinberra gjalda verði notaðar til að flýta mjög svo brýnni endurskoðun orkuverðs til Ísals. Það er margfalt merkilegra mál en rukkun vangreiddra gjalda.

Við megum ekki hafa um þetta slík læti að erlendir stóriðjumenn verði hræddir við að festa fé í samstarfi við okkur. Í álframleiðslu getum við til dæmis ekkert gert án markaðsaðildar hjá einhverju stóru fyrirtækjanna.

Iðnaðarráðherra og Þjóðviljinn mega því gjarna spara eitthvað af orðbragðinu. Hið sama er að segja um Morgunblaðið og álmenn. Þeir þurfa nefnilega líka á okkur að halda, þótt við stöndum af festu á okkar rétti.

Jafnvel þótt íslenzk orka til álvinnslu hækkkaði úr 0,6 centum í 2,4 cent, eru í rauninni fá lönd í heiminum, sem væru samkeppnishæf við Ísland í framboði á ódýrri forgangsorku. Við höfum góð spil, ef við beitum rólegu viðskiptaviti.

Jónas Kristjánsson

Dagblaðið