Úrelt hráefni

Veitingar

Þrír frakkar eiga í vök að verjast fyrir nýjum fiskréttahúsum. Sumt er fornt í sniðum, einkum forsoðnar kartöflur og niðursoðnar gulrætur, einnig hvít hrísgrjón bragðlaus. Nú á tímum fæst ferskt og gott grænmeti árið um kring, en Úlfar Eysteinsson er enn með dósahnífinn og skærin á lofti. Skyggir samt ekki á, að fiskurinn hjá honum er jafnan ferskur og hæfilega eldaður. Og að úrvalið er meira en á nokkrum öðrum stað. Þrír frakkar eiga strax að skipta úr matreiðslu á niðursoðnu og forsoðnu grænmeti yfir í ferskt. Taki þannig af fullri reisn þátt í innreið fiskréttahúsa á toppinn í veitingaflórunni.