Dönsk dæmisaga.

Greinar

Fyrir nokkru birtist í Þjóðviljanum einkar athyglisverð grein. Þar er lýst á tilþrifamikinn hátt, hvernig heil stétt getur með hörku samið sig út á gaddinn og fengið stjórnendur fyrirtækja til að stefna markvisst að algerri sjálfvirkni í iðnaði. Orðréttir kaflar úr grein blaðsins lýsa þessu bezt:

“Prentarar á dagblöðum (í Danmörku) gegna lykilhlutverki í viðkvæmum framleiðsluferlum. Sérmenntun þeirra skapar þeim einokunaraðstöðu.” “Með smávægilegum skæruhernaði geta prentarar tafið framleiðslu blaðs um hálfan dag – og það er óseljanlegt.”

“Hafa stuðningsmenn kommúnistaflokksins tögl og hagldir í stjórn þess” (prentarasambandsins). “Samkvæmt samningum þeirra hækka laun dagblaðaprentara á hálfs árs fresti til samræmis við þær hækkanir, sem aðrir prentarar hafa fengið. Þeir síðarnefndu knýja jafnharðan fram launahækkun með tilvísun til þeirra háu launa, sem dagblaðaprentarar fá og þannig koll af kolli.”Þetta heitir: “Rugguhestur”.

“Launahækkanir þeirra hafa leitt til þess, að atvinnurekendur hafa vaxandi hag af því að framþróa tækni, sem gerir prentara óþarfa.” “Eru tölvurnar gerðar þannig úr garði, að blaðamenn eða skrifstofufólk getur tekið við störfum setjara.”

“Þeir (danskir prentarar) hafa tafið fyrir því, að ný tækni sé innleidd, en sú baráttuaðferð dugar skammt. Því hafa þeir beitt samtakamætti sínum til að halda einokun á störfum, sem í raun krefjast ekki prentnáms.” “Situr þar prentari og vinnur störf, sem ófaglærð skrifstofustúlka gæti unnið og tæki hún ánægð við helmingi þess kaups, sem hinn iðnlærði prentari fær.”

“Prentarar hafa lent í deilum við aðra starfshópa, einkum skrifstofufólk, þar sem vinnuaflssparnaðurinn í kjölfar tæknibyltingarinnar hefur bitnað á þessum hópi, meðan prentarar vinna störf, sem eru í raun skrifstofustörf.”

“Í samkeppni prentfyrirtækja hafa einstök fyrirtæki, einkum nýstofnuð, getað beitt nýrri tækni til ýtrasta sparnaðar í framleiðslukostnaði, ekki sízt með því að fækka prenturum. Þessi fyrirtæki hafa náð til sín verkefnum frá eldri fyrirtækjum.”

“Það andaði köldu frá öðrum starfsstéttum blaðanna, sem fannst nóg komið með launaforréttindi prentara, þótt þeir færu ekki líka að sölsa undir sig starfssvið, sem hingað til hafa tilheyrt öðrum hópum.”

“Hin nýju fyrirtæki “nýrrar tækni” höfðu fært út kvíarnar í verkbanninu, enda eru þau yfirleitt ekki í vinnuveitendasambandinu. Tóku þau við prentun ýmissa blaða og munu halda því áfram.” “Prentaradeilan er á margan hátt dæmigerð fyrir samspil launa- og tækniþróunar.”

Eftir lestur þessarar greinar Þjóðviljans skilja menn áherzluna, sem nú er lögð á tæki, er gera ekki bara setningu sjálfvirka, heldur líka umbrot, filmuvinnu og plötugerð. Og svo er farið að tala um að hætta að prenta dagblöð og senda þau í þess stað símleiðis til viðskiptavina.

Sennilega bíða danskir blaðaútgefendur óþreyjufullir eftir framtíðinni!

Jónas Kristjánsson

Dagblaðið