Umheimurinn er inni á gafli.

Greinar

Þeir, sem ekki voru áður búnir að sjá Snorra Sturluson af myndsnældu, fengu að sjá hann í fyrrakvöld og komust þar með í umræðuhæfra manna tölu. Án snarræðis myndsnældumanna hefði sjónvarpið líklega geymt Snorra til jóla.

Lögreglurannsókn er nýlega hafin vegna kæru útvarpsstjóra á hendur ótilteknum mönnum fyrir að taka upp hina dönsku útsendingu og dreifa henni til almennings um eitt eða fleiri myndsnældukerfanna, sem fara hér um sem eldur í sinu.

Snorramálið er gott dæmi um, að myndsnældurnar eru smám saman að rjúfa einkarétt Ríkisútvarpsins á sjónvarpi. Ráðamenn þess geta ekki lengur ákveðið, hvenær hentar þeim að senda út efni, sem liggur tilbúið til útsendingar.

Nú er talið, að um eða yfir 80% íbúða í Breiðholti séu tengd myndsnældukerfi. Þar á ofan hafa nokkur kerfi þar verið tengd saman í eitt stórt 1000 íbúða og 4000 íbúa kerfi. Litlu útvarpsstjórarnir eru að stækka.

Þessi sprenging er engan veginn bundin fjölbýlishúsum. Einbýlishúsahverfi voru fyrst tengd saman með kapli í myndsnældukerfi á Suðurnesjum og síðan annars staðar. Seljendur slíkra tækni auglýsa meira að segja opinberlega.

Búið er að koma fyrir kapalkerfum í Stykkishólmi og á Hvolsvelli. Framkvæmdir eru langt komnar í Vestmannaeyjum og Borgarnesi og eru fyrirhugaðar á Akureyri, Siglufirði og Hornafirði. Sókn myndsnældanna verður ekki stöðvuð.

Augljóst er, að fljótlega kemur að því, að meirihluti þjóðarinnar hafi aðgang að fleiri útvarpsstjórum en Andrési Björnssyni. Kærur og lögreglurannsóknir hafa ekki og munu ekki megna að hindra þessa byltingu.

Enn sem komið er hefur einkaréttur Ríkisútvarpsins fyrst og fremst verið rofinn í afþreyingarefni. Almenningur hefur komizt í aðstöðu til að taka brezka sakamálaþætti fram yfir norræna þætti þjóðfélagslegra vandamála.

En þetta er bara tímabundið ástand. Senn verður líka rofinn einkarétturinn á fréttum og öðrum upplýsingum, þegar evrópsku gervihnettirnir fara á loft. Geislar eins eða tveggja þeirra að minnsta kosti munu ná til Íslands.

Við sjáum forsmekkinn í Bandaríkjunum, þar sem tólf gervihnettir sjónvarps eru á lofti. Þar bjóða hvorki meira né minna en 70 framleiðendur upp á móttökustöðvar til einkanota. Verð þeirra er frá 28.000 krónum til 112.000 króna.

Þetta verð á eftir að lækka verulega. En þegar hafa 10-20.000 fjölskyldur keypt jarðstöðvar. Búizt er við, að þeim fjölgi um að minnsta kosti 10.000 á ári og síðan örar, þegar stöðvarnar hafa lækkað í verði.

Ekki þarf mikið hugmyndaflug til að spá, að loftnet af þessu tagi verði tengd íslenzku myndsnældukerfunum um leið og erlendir gervihnettir gefa til þess tækifæri. Hinn íslenzki einkaréttarhafi verður þá jafn varnarlaus og nú.

Sá tími er að hverfa, að góðviljaðir menningarvitar sitji í hlutverki hliðvarða gagnvart útlöndum og ákveði fyrir okkur, hvað okkur sé hollt að sjá í sjónvarpi og hvað ekki. Tæknin hefur laumazt í kringum þessa ágætu menn.

Myndsnældubyltingin er langsamlega alvarlegasta áfallið, sem hin opinbera forsjárstefna hefur orðið fyrir. Þjóðfélagið verður öðruvísi eftir þessa byltingu, hvort sem menningarlegum hliðvörðum líkar betur eða verr.

Jónas Kristjánsson

Dagblaðið