Skrautfjöðrin.

Greinar

Sparifé Íslendinga í bönkum og sparisjóðum hefur á einu ári aukizt um 87%. Á sama tíma hefur verðbólgan verið 49%. Raunveruleg aukning sparifjár umfram verðbólgu hefur því numið 25% á þessum tíma. Og þetta er án efa nálægt heimsmeti.

Árangurinn eigum við verðtryggingarstefnunni að þakka. Fólk er farið að spara á nýjan leik, af því að það hefur fengið aðgang að fullkomlega verðtryggðum innlánsformum. Algerlega ný og betri viðhorf fylgja í kjölfarið.

Árangurinn má ekki verða til, að stjórnvöld slaki á klónni og fari að draga úr verðtryggingu fjárskuldbindinga. Ekki er rökrétt að skipta um stefnu, sem gengur vel, heldur ber að stefna að leiðarenda, fullri verðtryggingu útlána.

Mörg fyrirtæki og heilar atvinnugreinar kvarta um, að fjármagn sé orðið of dýrt. Það sé of þungur baggi á rekstrinum. Stjórnmálamenn, sem eru þjálfaðir í að hlaupa á eftir þrýstihópum, eru veikir fyrir slíkum röksemdum.

Hitt er sönnu nær, að rekstur, sem ekki getur greitt lánað fé til baka í jafngóðum verðmætum, er ekki arðbær. Fjármagnið er betur komið hjá hinum, sem geta endurgreitt það, en fá nú of litla fyrirgreiðslu lánastofnana.

Því miður hefur Seðlabankinn tekið sparifjáraukninguna að verulegu leyti frá bönkunum til hinna sjálfvirku forgangsútlána. Þess vegna er ekki enn hægt að átta sig á, hvort aukningin geti leitt til jafnvægis á lánamarkaði.

Eðlilegt framhald af verðtryggingu sparifjár er, að skömmtun og sjálfvirkni verði minnkuð í útlánum og í staðinn verði reynt að koma þar að markaðslögmálum, svo að hið sparaða fé renni til arðbærari verkefna en áður.

Verðtryggingu fjárskuldbindinga er fundið það til foráttu, að hún lami framtak unga fólksins og geri því ókleift að eignast þak yfir höfuðið. En þetta stafar aðeins af því, að stjórnvöld hafa trassað hliðaraðgerðir.

Húsnæðislán þurfa að vera til 40 ára, ekki aðeins hjá húsnæðismálastofnun, heldur líka lífeyrissjóðum og hinu almenna bankakerfi. Þar er vandinn, sem hindrar fólk í að að byggja. Þann vanda verða stjórnvöld að hafa forgöngu um að leysa.

Lúðvík Gizurarson hæstaréttarlögmaður hefur oftar en einu sinni bent á það í kjallaragreinum í Dagblaðinu, að 300 þúsund króna húsnæðislán megi greiða niður á 40 árum með eitt þúsund króna mánaðargreiðslum á núverandi verðlagi.

Á sama hátt mætti greiða niður 750 þúsund króna húsnæðislás með 2,5 þúsund króna mánaðargreiðslum í 40 ár. Því er ljóst, að með 40 ára lánstíma er ódýrara og öruggara að byggja en að þurfa að sæta leigumarkaði.

Það er falskenning, að fólk geti ekki byggt nema með gjafakjörum í vöxtum. Vel er hægt að eignast þak yfir höfuðið, þrátt fyrir fulla verðtryggingu fjárskuldbindinga, ef stjórnvöld skipuleggja nógu löng lán og nógu há lán.

Hin mikla aukning sparifjár er ein helzta skrautfjöðrin í hatti ríkisstjórnarinnar. Þeirri skrautfjöður má hún ekki glopra niður með undanlátssemi gagnvart þrýstihópum, sem vilja fá að endurgreiða lán í rýrðu verðgildi.

Þvert á móti þarf ríkisstjórnin að standa við loforð um fulla verðtryggingu fjárskuldbindinga fyrir áramót, líka á lánum til forréttindagreina. Einnig þarf hún að koma á lengingu og hækkun húsnæðislána og aukinni notkun markaðsafla í útlánum.

Jónas Kristjánsson

Dagblaðið