Þriðja skrípareglan.

Greinar

Í landi nokkru rýfur viðskiptaráðherrann einkarétt Sambandsins og Sölumiðstöðvarinnar með því að veita vini sínum og flokksbróður í Íslenzku umboðssölunni undanþágu til freðfiskssölu á Bandaríkjamarkaði.

Jafnframt bannar þessi ráðherra öðrum aðila, Íslenzku útflutningsmiðstöðinni, að rjúfa þennan einkarétt, þótt fyrirtækið hafi í þrjú ár haft undanþágu til freðfisksölu á Bandaríkjamarkaði framhjá Sambandinu og Sölumiðstöðinni.

Í þessu sama landi rýfur samgönguráðherrann einkarétt Flugleiða með því að veita vini sínum og flokksbróður í Icecargo undanþágu til áætlunarflugs til Amsterdam, jafnvel þótt allir vissu, að engin flugvél var til slíks brúks.

Jafnframt frestar þessi ráðherra að veita öðrum aðila, Arnarflugi, undanþágu til áætlunarflugs til nokkurra evrópskra borga, og það á þeim forsendum, að upplýsingar skorti um flugvélakost til áætlunarflugsins!

Auðvitað gerist þetta í landi afkomenda Snorra Sturlusonar, sem var önnum kafinn við að gifta dætur sínar öðrum höfðingjum landsins sér til auðs og valda. Þetta gerist í landi flokksbanda, vináttubanda og fjölskyldubanda.

Erfitt er að tala um skynsama atvinnupólitík í landi, þar sem menn á borð við Tómas Árnason og Steingrím Hermannsson ráða ferðinni með svipuðum vinnubrögðum og Svavar Gestsson og Ragnar Arnalds beita í mannaráðningum.

Í gegnum skrípaleiki og glæp íslenzkra stjórnmála má þó greina tvö höfuðatriði þjóðlegrar atvinnuvegastefnu. Hið fyrra er, að neytendur og skattgreiðendur skuli halda úti eins miklum landbúnaði og frekast er unnt.

Hið síðara er, að arður sjávarútvegsins og annarra útflutningsgreina skuli hirtur jafnóðum með falskri gengisskráningu, svo að þessar greinar séu reknar á því sem næst núlli, þótt þær séu hin raunverulega verðmætauppspretta þjóðarinnar.

Á síðustu misserum er þó farið að brydda á þriðju reglunni. Hún er sú, að Tómas og Steingrímur, Svavar og Ragnar megi hjálpa einstökum hallærisfyrirtækjum að því marki, sem nemi beinum tekjum ríkisins af viðkomandi atvinnurekstri.

Þetta er brezka stefnan, sem vinstri Gallaghan og hægri Thatcher hafa beitt í raun og þar með komið flestum stærstu fyrirtækjum Bretlands á kaldan klaka. Samkvæmt henni er í lagi, að ýmsir þættir atvinnulífsins skili engu til sameiginlegra þarfa.

Í stað þess að hleypa starfskröftum og fé úr hallærisfyrirtækjum til arðbærra verkefna er vinnu og fjármagni haldið uppi, fyrst í von um betri tíma, en síðan bara til að fresta óþægindum. Enda eru hin arðbæru verkefni óvís í Bretlandi atvinnuleysis.

Þessi stefna er nú kynnt hér, þar sem lausar stöður eru margfalt fleiri en atvinnulaust fólk; þar sem heilir landshlutar hrópa á mannskap. Í landi ótal arðbærra verkefna á að bæta fyrirtækjum við landbúnaðinn á ómagaskrána.

Fjórtán milljónir króna til Flugleiða eru ekki eina dæmið um þetta hugarfar, bara hið frægasta. Þar á að styðja flug, sem sannað er, að verður aldrei fjárhagslega arðbært, meðan haldið er niðri flugfélögum, sem vilja þenjast út.

En í landi Snorra Sturlusonar þýðir lítið að benda á, að því meira sem fjölgað er ómögunum, þeim mun meiri framfærslubyrði er lögð á sjávarútveginn og aðra útflutningsatvinnuvegi, sem halda uppi lífi í þessu landi.

Jónas Kristjánsson

Dagblaðið