Ólafur stakk á kýlum.

Greinar

Ræða Ólafs Jóhannessonar utanríkisráðherra á allsherjarþingi Sameinuðu þjóðanna í síðustu viku var meðal hinna beztu, sem þar hefur verið flutt fyrir Íslands hönd.

Samkvæmt mannasiðum í heimi sendiherra gat Ólafur ekki nafngreint þann aðila, sem með linnulausri heimsvaldastefnu veldur mestum vandræðum í alþjóðlegum samskiptum. Þar þykir of dónalegt að réttnefna Kremlverja sem glæpamenn.

Helzti galli ræðunnar var, að í henni voru ekki gagnrýnd afskipti Sovétríkjanna af pólskum innanríkismálum, sem koma fram í sífelldum kvörtunum og illa dulbúnum hótunum. Gagnrýni á þessi afskipti átti vel heima í ræðunni.

En fyrsta mál Ólafs var innrás Sovétríkjanna í Afganistan, sem nú hefur staðið heil tvö ár. Á þessum tíma hefur allsherjarþing Sameinuðu þjóðanna tvisvar fordæmt þetta brot Kremlverja á fullveldisákvæðum stofnskrár samtakanna.

Um þetta sagði Ólafur m.a.: “ … tel ég fulla ástæðu til að ítreka yfirlýsingu mína með enn meiri þunga en áður. Fullveldi og stjórnmálasjálfstæði allra ríkja verður að virða, ef takast á að draga úr þeirri hættulegu spennu …”

Ólafur nefndi ekki heldur Kreml eða Sovétríkin, þegar hann vék að síbrotum á mannréttindaákvæðum Helsinki-samkomulagsins, sem felast í verulegri minnkun mannréttinda í Sovétríkjunum síðan Brésnjéf undirritaði samkomulagið.

Um þetta sagði Ólafur m.a.: “Því miður hefur reyndin orðið sú, að sum þeirra ríkja, sem taka þátt í þessu samstarfi, hafa sýnt fremur lítinn vilja til að framfylgja vissum veigamiklum þáttum lokasamþykktarinnar.”

Síðan Reagan kom Bandaríkjunum í hóp tveggja risavelda, sem stefna að hernaðarlegum yfirburðum hvort gegn öðru, má segja, að ekki sé ástæða til að geta Sovétríkjanna sérstaklega á því sviði, þótt hernaðarstefna þeirra hafi lengi verið samfelld.

Um þetta sagði Ólafur m.a. : “Vopnakapphlaupið er að því leyti ólíkt öðrum kapphlaupum, að því hraðar, sem menn hlaupa, því meiri líkur eru á að allir tapi. Þess vegna má trygging öryggis ekki snúast um að ná hernaðarlegum yfirburðum.”

Eftir umfjöllunina um Afganistan, Helsinki-svikin og vígbúnaðarkapphlaupið vék Ólafur stuttlega að nokkrum öðrum málum, rétti Ísraelsmanna og Palestínumanna, kynþátta- og ofbeldisstefnu Suður-Afríku og innrás Vietnam í Kampútseu.

Síðan fjallaði Ólafur um vandamál þriðja heimsins og skyldur hinna ríku þjóða, þar á meðal Íslands, sem verða að auka framlög sín til þróunarverkefna, ekki sízt á hinum aðkallandi sviðum orkuöflunar og orkunýtingar.

Þá benti Ólafur á þá staðreynd, að í stórum og vaxandi hlutum heimsins eru brotin grundvallaratriði mannréttindasáttmála Sameinuðu þjóðanna og það af hálfu ríkisstjórna, sem taka þátt í samtökunum eins og ekkert sé.

Ólafur gat þó ekki hinnar hörmulegu staðreyndar, að mannréttindi í þriðja heiminum hafa stórlega rýrnað, síðan nýlenduveldin gömlu hurfu af vettvangi. Alþýða manna er mun meira kúguð af innlendri valdastétt en áður af hinni erlendu.

Um þetta sagði Ólafur þó: “ … brot gegn þessari grundvallarreglu gerast æ tíðari í stórum hlutum heims. Ofbeldi og hervaldi er grímulaust beitt að geðþótta stjórnvalda, hvort sem er til að kúga einstaklinga, minnihlutahópa eða heilar þjóðir …”

Jónas Kristjánsson

Dagblaðið