Eftir ýkjuskeið: Ný hefð.

Greinar

Áratug eftir áratug hefur tíðkazt í Menntaskólanum í Reykjavík, að eldri nemendur tolleruðu hina nýju, köstuðu þeim upp í loftið og gripu þá aftur, alveg eins og þegar sigursæl íþróttasveit tollerar þjálfara sinn eða liðsstjóra.

Þetta er ein af mörgum hefðum, sem við sjáum alls staðar, en sennilega ein hin kunnasta. Henni þurfa engar ýkjur að fylgja með nýjum árum. Hún er ekkert frumleg, enda er það ekki í eðli hefða að vera frumlegar. Þær standa óbreyttar fyrir sínu.

Sem hefð er tolleringin hættulaus, bæði limum og fötum. Hún var og er engin vígsla í launhelgun, heldur aðeins einföld og hefðbundin móttökuathöfn frá þeim tíma, er fjárráð ungs fólks leyfðu ekki ótakmörkuð fatakaup.

Síðan hafa komið til sögunnar nýir menntaskólar og fjölbrautaskólar, þar sem nemendur hafa líka viljað koma á fót hefðum. En því miður hefur víðast hvar skort hugmyndaflug til annars en skrumskælinga á eldri hefð, einnig í gamla menntaskólanum.

Móttaka nýrra nemenda í hóp hinna eldri í þessum skólum er yfirleitt samkeppni í meiru, stærra, hrikalegra, yfirgengilegra. Til slíks þarf auðvitað ekki hugmyndaflug, bara ruddaskap, tillitsleysi og ofbeldi.

Í sumum skólum, þar á meðal í MR, minna aðfarirnar svo mjög á brezka einkaskóla, að ætla mætti, að eitthvað sé bogið við þær, að einhver sálræn vandamál liggi að baki þeirra, ef leyfilegt væri að skýra atferli hópa á sálfræðilegan hátt.

En vonandi er þetta bara skortur á átrás hjá æsku, sem ekki fær hana í heilbrigðum íþróttum, meðal annars vegna þess, að skólarnir hafa litla aðstöðu til að bjóða upp á kennslu í íþróttum til orkuúrrásar.

Einhvern tíma hlaut að koma að því, að í einhverjum skóla skapaðist hugmyndaflug til nýs stíls, nýrrar hefðar, sem væri eitthvað annað og meira en skrumskæling á eldri hefð, ekki bara stærri og ýktari útgáfa af hinu eldra.

Þetta virðist hafa tekizt í verzlunarskólanum, þar sem eldri nemendur bjóða nýja velkomna með kaffi og kökum, svona rétt eins og taldist til gestrisni hér á landi fyrr á árum, áratugum og öldum og telst kannski enn.

Með kaffinu og kökunum fylgja ýmsar útskýringar á skólahaldi og félagslífi, svo og skemmtiatriði af hálfu hinna eldri nemenda. Enginn er barinn, málaður, niðurdýfður, fatarifinn eða gervihengdur. Og margir eru bara hissa.

Með þessu bragði hefur Verzlunarskólamönnum tekizt að búa til nýja hefð, sem getur síðan alveg eins og tolleringin haldizt óbreytt áratug eftir áratug, af því að hún er einföld hefð, sem ekki þarfnast endurbóta eða skrumskælinga.

Þetta framtak gæti ef til vill veitt nemendum annarra skóla innsýn í þá staðreynd, að inntökuaðferðir þeirra sjálfra eru dæmi um sára andlega fátækt, skort á hugmyndaflugi og vangetu á að búa til eitthvað alveg nýtt og öðruvísi.

Í þessari þróun mála sjáum við í hnotskurn, hvernig stílaskipti hafa orðið á ótal sviðum í mannkynssögunni. Fyrst ýkja menn fyrri stíl, unz einhverjum dettur í hug eitthvað alveg nýtt, þegar nógu margir eru orðnir þreyttir á ýkjunum.

Hinn nýi stíll, hin nýja hefð draga þó ekki ár gildi hins klassíska forms fyrri stíls, fyrri hefðar, eins og hún var, áður en skrumskælingin kom til sögunnar. Tolleringar gætu áfram staðið fyrir sinu.

Jónas Kristjánsson

Dagblaðið