Tómatar handa rottum.

Greinar

Enn einu sinni hefur Dagblaðið upplýst og sannað með myndum, að Sölufélag garðyrkjumanna fleygir fyrsta flokks tómötum í stórum stíl. Þetta gerir einokunarfyrirtækið til að halda uppi áeðlilega háu verði á hinum, sem eftir eru.

Neytendasamtökin hafa lýst undrun sinni og reiði á þessu athæfi Sölufélagsins. Þau telja ennfremur, að þetta sé brot á samkomulagi og samstarfi, sem varð með þessum aðilum eftir hliðstæða uppljóstrun Dagblaðsins árið 1978.

Þá birti Dagblaðið líka mynd af breiðum tugþúsunda tómata á öskuhaugunum. Fjölmargir urðu mjög reiðir yfir þessari meðferð matvæla. Það leiddi til, að hætt var að sinni að fleygja tómötum og verð þeirra lækkað í staðinn.

Sölufélagið og Neytendasamtökin tóku saman höndum um að koma tómötunum út á lágu verði og nutu til þess kynningar Dagblaðsins. Árangurinn varð þá sá, að hin holla vara nýttist til manneldis og að tekjur garðyrkjubænda urðu meiri en ella.

En Sölufélag garðyrkjumanna virðist alveg hafa gleymt þessari lexíu. Enn læðist það í skjóli nætur til að kasta matvælum á haugana og reynir nú að fela þau með sagi, svo að athæfið festist síður eða ekki á mynd.

Staðinn að verki segir forstjóri Sölufélagsins, að þetta hafi verið allt of rauðir, ofþroskaðir og ósöluhæfir tómatar. Þetta er lygi, af því að fjöldi starfsmanna Dagblaðsins getur vitnað um, að þetta var hin bezta söluvara.

Ennfremur segir forstjórinn, að tómataverð hafi árangurslaust verið lækkað um þriðjung vikuna 24.- 28. ágúst. Meiru hafi verið eytt í auglýsingar en inn hafi komið í tekjur. Þar með hafi fyrirtækið gefizt upp á lækkuninni.

Þessi meinta auglýsingaherferð forstjórans fór framhjá flestum. Miklum meirihluta neytenda var ókunnugt um, að tómatar hefðu verið lækkaðir í verði um þriðjung. Staðreyndin er sú, að Sölufélagið kann ekki að selja.

Miklu nær hefði verið að muna fyrri tíð og snúa sér til Neytendasamtakanna til samstarfs. Trúlega hefði þurft að lækka tómatana meira til að ná markaðsverði, en alténd var nauðsynlegt að segja neytendum frá verðlækkun.

Dagblaðið og sjálfsagt fleiri fjölmiðlar hefðu sjálfsagt ekki talið eftir sér að vekja athygli á, að góð vara mætti ekki fara til spillis, eins og það gerði 1978, þegar tómatafjallið hvarf eins og dögg fyrir sól.

Enginn vandi er að koma út offramleiðslu, ef varan er fyrsta flokks, svo sem íslenzkir tómatar eru yfirleitt, og ef verðið er lækkað nægilega til að almennir neytendur hafi efni á að kaupa vöruna til hversdagsnotkunar.

Söluaðferð fyrirtækisins byggist á, að tómatar séu dýr lúxusvara, sem notuð sé afar sparlega á heimilum. Þetta er í eðlilegu samræmi við markaðslögmál, þegar tómatar eru af skornum skammti á hlutum hinnar árlegu vertíðar.

Hins vegar þarf Sölufélagið að sveigja í sölustefnu, þegar tómatar hrúgast á markaðinn. Þá þarf að líta á þá sem ódýra hversdagsvöru, sem neytendur muni kaupa í töluverðum mæli. Þetta er líka í eðlilegu samræmi við markaðslögmál.

Ekki má heldur gleyma, að ofan á stirðleika Sölufélagsins og vangetu þess til að haga sér eftir aðstæðum bætist svo óhugnanlegt siðleysi, þegar útkoman er sú, að góðum matvælum er fleygt í rotturnar á haugunum.

Jónas Kristjánsson

Dagblaðið