Marklaust einvígi.

Greinar

Flest bendir nú til, að hinn alþjóðlegi skrípaleikur skákmanna geti hafizt í Merano á Ítalíu í dag. Samningamenn einvígismanna hafa náð samkomulagi um ýmis framkvæmdaatriði, sem áður var talið, að vefjast mundu fyrir.

Kortsjnoj fær að leika undir svissneska fánanum og að hlusta á svissneska þjóðsönginn í upphafi einvígis. Karpov fær trégrind undir skákborðið til að hindra spörk frá Kortsjnoj. Dávaldar og miðlar eru komnir á sinn stað.

Kannski finnur þó Kortsjnoj fljótlega, að hann þurfi skothelt gler til að verjast dávaldinum. Og kannski finnur Karpov fljótlega, að hann þurfi öðru vísi lýsingu í salnum þrátt fyrir allt. Friðurinn er næsta ótryggur.

Að mati aðstandenda einvígisins er þó friðvænlegra í upphafi þess en verið hefur við upphaf slíkra um langt skeið, allt frá því fyrir þá tíð, er Fisher og Spasskí tefldu í Laugardalshöll og flugan fannst, sællar minningar.

Sæla aðstandenda byggist þó fyrst og fremst á, að þeir telja unnt að láta fara fram svokallað heimsmeistaraeinvígi í skák upp á þau býti, að útgerðarmenn annars keppendans fái að halda fjölskyldu hins í gíslingu á einvígistímanum.

Skák mun vera eina keppnisgreinin á alþjóðlegum vettvangi, þar sem ríkir siðblinda af þessu tagi. Nokkrar vonir stóðu til, að þetta mundi breytast með tilkomu íslenzks forseta, en þær vonir urðu að engu fyrir tveimur mánuðum.

Að vísu eru sovézk lög að því marki sovézkt innanríkismál, að þau varði ekki við Helsinki-samkomulagið, sem Brezhnev undirritaði. Og alþjóðleg keppnisskilyrði geta engan veginn talizt til sovézkra innanríkismála.

Sorglegt er, hversu langt forseti Alþjóða skáksambandsins hefur talið sig þurfa að ganga til að réttlæta ósigur sinn í þessu hreina og einfalda réttlætismáli, sem allir virðast skilja, nema sumir skákáhugamenn einir.

Af hverju þarf sífellt að endurtaka að “ … varð forsetinn þess áskynja, að nánir ættingjar áskorandans höfðu aldrei lagt fram gilda umsókn fyrir fjölskyldu hans um að ná fundum hans …”. Hvað á svona útúrsnúningur að þýða?

Viktor Kortsjnoj og fjöldi manns hafa lagt mikla vinnu í að ná Bellu og Igor Kortsjnoj úr faðmi Sovétríkjanna og reynt allar hugsanlegar leiðir til að tala um fyrir Kremlverjum. Um þetta á lögfræðilegur dónaskapur ekki við.

Af hverju þarf líka að ítreka að Igor hafi neitað að gegna herþjónustu og verði því að sitja í haldi til næsta vors? Af hverju bætir forsetinn aldrei við skýringum þess, að margir gyðingar vilja ekki gegna sovézkri herþjónustu.

Hafandi gegnt herþjónustu eru þeir taldir búa yfir hernaðarleyndarmálum. Reynslan sýnir, að umsóknum þeirra um að fá að flytjast úr landi er síðan hafnað á þeim sniðugu forsendum, að hernaðarleyndarmál megi ekki fara úr landi.

Nú kann vel að vera, að athafnir Friðriks Ólafssonar leiði til þess, að Kremlverjar viðurkenni eitt af þúsund brotum Helsinki-samkomulagsins og sendi Bellu og Igor vestur fyrir tjald næsta vor. Það verður þakkað hér, þegar þar að kemur.

Hitt er óbreytt, að þetta marklausa, svokallaða heimsmeistaraeinvígi í skák fer fram upp á býti ódrengskapar, sem er til skammar öllum þeim, sem að standa, þar á meðal forsetanum, svo og Íslandi, sem á óbeinan hlut að máli.

Jónas Kristjánsson

Dagblaðið