Of dýrt að byggja? Nei!

Greinar

Verðtryggingin hefur kennt þjóðinni að spara á nýjan leik eftir áratuga verðbólgudans. Á aðeins einu ári hefur sparifé í bönkum og sparisjóðum aukizt um 25% umfram verðbólgu eða um 1.000 milljónir króna umfram verðbólgu.

Heill milljarður nýkróna er enginn smápeningur. Hann hefur til dæmis gert Seðlabankanum kleift að auka frystinguna, það er að segja að taka aukinn hluta af fé bankanna til afurðalána og annarra sérþarfa í umsjá Seðlabankans.

Jafnframt hafa bankar og sparisjóðir getað lánað meira en áður. Öll aukningin hefur raunar horfið í hítina, því að enn er eftirspurn lánsfjár meiri en framboð þess. En við stefnum þó greinilega í átt til jafnvægis.

Ef stjórnvöld hvika ekki frá stefnu fullrar verðtryggingar, má búast við, að smám saman myndist heilbrigt jafnvægi milli framboðs og eftirspurnar sparifjár. Um leið myndast nýr máttur ýmissa þeirra hluta, sem gera þarf.

Sparifjáraukninguna þarf að nokkrum hluta að nota til að bæta hlut húsbyggjenda, sem verðtryggingin hefur óneitanlega leikið nokkuð grátt. Sparifjáraukninguna á að hluta að nota til að gera fólki kleift að byggja á nýjan leik.

Við þurfum að koma upp lánakerfi til húsnæðislána, sem er eins öflugt og hið bandaríska, þar sem bankar lána hiklaust 90-100% kostnaðar, svo framarlega sem þeir geta reiknað út, að tekjur lántakanda standi undir vöxtum og afborgunum.

Með núverandi verðtryggingu gætu menn greitt niður 300 þúsund króna lán með 1.000 króna mánaðargreiðslum í 40 ár, 750 þúsund króna lán með 2.500 króna mánaðargreiðslum í 40 ár og 1.5 milljón króna lán með 5.000 króna mánaðargreiðslum í 40 ár.

Vandinn er í rauninni ekki sá, að of dýrt sé orðið að byggja. Vandinn felst fremur í að ætlast til, að fólk geti eignazt íbúð eða hús að verulegu leyti á aðeins tíu árum. Til slíks á auðvitað að þurfa miklu lengri tíma.

Fullkomið húsnæðislánakerfi mundi gera fólki kleift að búa í samræmi við tekjur. Með 1.000 krónum til aflögu á mánuði í stað húsaleigukostnaðar ættu menn að geta eignazt að minnsta kosti 300 þúsund króna smáíbúð.

Ef greiðslugetan eykst í 2.500 krónur á mánuði, ættu menn að geta selt smáíbúðina og keypt sér 750 þúsund króna íbúð eða hæð. Og ráði menn síðar við 5.000 krónur á mánuði, ættu þeir að geta fengið sér 1.500 þúsund króna einbýlishús.

Með því að gera afborganirnar að mánaðargreiðslum og stilla þeim upp gegn húsaleigugreiðslum, sem sparast við að eignast húsnæði, væri fundin mjög heppileg leið til að gera fólki kleift að eignast þak yfir höfuðið.

Þessi leið mundi einnig draga úr þörfinni á óbærilega mikilli vinnuþrælkun og tilheyrandi skerðingu fjölskyldulífs, sem nú fylgir allt of oft hetjulegri baráttu fólks við að koma undir sig fótunum við erfiðar aðstæður.

Auðvitað er þetta hægara sagt en gert. Að lána húsbyggjendum til 40 ára hlýtur að binda gífurlegt fé. Bankarnir ráða tæplega við það núna, einkum þó af því að innlánin eru yfirleitt aðeins bundin til skamms tíma, sex mánaða eða svo.

Með því að fitja upp á nýjum sparnaðarformum til lengri tíma með hærri vöxtum á þó að verða hægt að ná því takmarki, að bankakerfið geti komið á móti húsnæðisstofnun og lífeyrissjóðum og lánað til langs tíma það, sem upp í húsverðið vantar.

Jónas Kristjánsson

Dagblaðið