Ritstjórnarskrifstofur Vísis og Dagblaðsins voru á annarri hæð samliggjandi húsa við Síðumúla 12 og 14. Nóttina fyrir 26. nóvember 1981 var borað gat í brandvegginn milli fyrirtækjanna. Ritstjórnin var orðin ein, þegar fólk mætti til vinnu um morguninn. Menn voru steini lostnir, ráfuðu um gangana í leiðslu. Búið var að ganga frá tölublaði dagsins, svo að flestir höfðu tíma til að jafna sig. Fyrsta daginn og fyrstu dagana voru tölublöðin bastarðar af útlitsstefnu tveggja blaða. En smám saman komst skikk á málin og DV fékk sitt eigið form. Lífið hélt áfram, þótt samkeppnin væri komin í eina sæng.
DV varð áskriftarblað, ekki götusölublað eins og Dagblaðið. Það var raunar helzti munurinn á fyrra og síðara ástandi. Nýja blaðið var eins uppsett og með sams konar efni og eldra blaðið. Bara með fleiri síðum. Það kom líka út á sama tíma, í hádeginu. Allt átti þetta að vera ávísun á lausasölu. Engin kerfisbreyting hefði átt að verða á lestri þess. Samt gerðust menn unnvörpum áskrifendur. Lausasala dróst saman á móti, þó ekki í sama mæli. En tími götusölublaða leið snöggt undir lok, þegar Dagblaðið og Vísir voru lögð niður. Smám saman dró mjög úr köllum sölubarna, sem áður einkenndu miðbæinn.
Ellert B. Schram var ritstjóri Vísis og við urðum saman ritstjórar hins nýja blaðs. Þetta samstarf fór vel af stað og átti eftir að verða langt. Ellert var þægilegur maður í umgengni, allt öðru vísi en ég. Hann var fyrst og fremst stjórnandi, sem sá stóru línurnar, meðan ég var á kafi í smáatriðum. Ellert setti sig aldrei inn í tæknilega þætti blaðamennskunnar, en hélt góðu sambandi við starfsfólk. Hann undirbjó sig aldrei neitt, settist bara niður og skrifaði. Hann undirbjó sig ekki fyrir fundi eða ræður. Hann hafði gott sjálfstraust og vissi, að eitthvað mundi koma í hugann á réttu andartaki.
Ellert var jákvæður að eðlisfari, sá góðu þættina í starfsmönnum. Hann hélt uppi góðri stemmningu á ritstjórn. Þannig gerði hann ekki minna gagn á ritstjórn en ég gerði með því að anda niður í hálsmál á fólki. Okkur gekk vel að vinna saman, af því að við vorum svo ólíkir. Aldrei var ósamkomulag milli okkar. Við skiptum aldrei skapi í umgengni hvor við annan. Frá fyrsta degi var samstarf okkar heilt. Við gátum því snúið okkur óskiptir að verkum, sem komu nýja dagblaðinu að gagni. DV fór á beina siglingu frá fyrsta degi. En ég öfundaði Ellert alltaf pínulítið af meðfæddu sjálfstrausti hans.
Hörður Einarsson og Sveinn R. Eyjólfsson voru saman útgáfustjórar hins nýja blaðs. Við Ellert hittum þá á vikulegum fundum. Persónuleg samskipti voru líka utan funda. Samstarfið gekk snurðulaust árum saman. Hörður var þægilegur í umgengni, en átti stundum erfitt með ákvarðanir, hallaðist að því að fresta vandamálum. Á það reyndi fyrst og fremst í samstarfi þeirra Sveins. En ég tók ekki eftir öðru en það væri jafnan með ágætum. Við reyktum allir vindla á þessum árum. Fundarherbergi okkar var svo sannarlega eitt af þessum reykfylltu bakherbergjum, sem hafa orðið táknmynd hins hulda valds.
Tæpum tveimur árum síðar var árangur samrunans kominn í ljós. Morgunblaðið var þá með 70% lestur, DV með 64% lestur, Tíminn með 29% lestur, Þjóðviljinn með 16% lestur og Alþýðublaðið með 4%. DV var komið í sama stærðarflokk og Morgunblaðið. Við vorum í rífandi góðum gangi og tekjurnar sópuðust að blaðinu. Mælt í lestri og tekjum var ekki hægt að segja annað en að dæmið hafi gengið upp fullkomlega. Ritstjórnin var fjölmenn og hafði burði til að stunda nútíma blaðamennsku. Til dæmis eigin rannsóknir, sem voru nýjung hér á landi. Við vorum tíu árum eftir Watergate, en við vorum komin í gang.
Árið 1983 var konan mín, Kristín Halldórsdóttir, kjörin á þing fyrir hönd Kvennalistans. Ætla mátti, að það mundi skapa mér erfiðleika í starfi, en svo varð ekki. Enginn gat grafið upp, að DV gætti hagsmuna Kvennalistans eða Kristínar umfram aðra. Enginn fann höggstað á mér. Kristín hefur vafalaust lent í óþægindum mín vegna, en ég lenti aldrei í óþægindum hennar vegna. Ef eitthvað hefði verið athugavert við framgöngu DV, hefði ég án efa verið látinn finna fyrir því. Ég held, að allir hafi áttað sig á, að við höfðum skörp skil milli flokks og blaðs. Frá upphafi til enda þingmennsku hennar.
Fljótt varð hönnun Dagblaðsins ofan á í samstarfinu. Efnisval varð svipað og þar, en DV var mun stærra blað. Stóra laugardagsblaðið frá Vísi bættist við. Fljótlega urðu yfirmenn sömu og á Dagblaðinu. Við Ellert vorum ritstjórar, Haukur Helgason var aðstoðarritstjóri. Jónas Haraldsson varð fréttastjóri 1. júlí 1982, fyrst með Óskari Magnússyni, sem síðar varð kaupsýslumaður. Elías Snæland, áður ritstjóri Tímans, varð aðstoðarritstjóri 1. apríl 1984. Þá var mönnun lykilhlutverka komin í það form, sem hún var fram undir aldamót. Þetta var að mínu viti bezta teymi íslenzkrar fjölmiðlunar á þessu árabili.
Elías Snæland Jónsson var frábær stjórnandi, harður í horn að taka. Hann lét sér ekki líka við neitt fúsk. Hann var herforingi ritstjórnarinnar, ól menn upp sem agaða fagmenn. Elías var langreyndur, hafði verið í faginu alla sína starfsævi. Allt stóð eins og stafur á bók hjá honum og tímasetningar allar stóðust fullkomlega. Hann var rétti maðurinn til að keyra það flókna batterí sem ritstjórnin var orðin. Því miður misstum við Elías 11. ágúst 1997 út í tilraun til að gera Akureyrarblaðið Dag að sameiginlegum arftaka Tímans, Þjóðviljans og Alþýðublaðsins. Þaðan kom hann ekki til baka á DV.
DV var vel sett, þegar yfirstétt blaðsins var skipað aðstoðarritstjórunum Hauki Helgasyni og Elíasi Snæland Jónssyni, fréttastjóranum Jónasi Haraldssyni, menningarstjóranum Aðalsteini Ingólfssyni, hönnuðinum og tæknistjóranum Jóhannesi Reykdal og prófarkastjóranum Ásgrími Pálssyni. Mér var næsta ofaukið í þessari vel smurðu vél. Á hennar grunni gekk DV vel sem fjölmiðli. Lítið var um breytingar, en gott úthald í hlutverkum ritstjórnar. Enda er kannski ekki ástæða til að gera við það, sem ekki er bilað. Eða breyta því, sem er góð söluvara. Þannig varð DV að eins konar fjölmiðlarisa.
Við Ásgrímur prófarkastjóri settum upp inntökupróf blaðamanna. Það prófaði mest kunnáttu í íslenzku, en snerti líka athyglisgáfu og almenna þekkingu. Prófið vandaði valið á sumarblaðamönnum og nýjum blaðamönnum. Enginn komst í gegn, án þess að kunna íslenzku. Það vakti hins vegar athygli mína, að menn höfðu lítinn áhuga á að bæta sig síðar. Endurteknar tilraunir til að benda blaðamönnum á gallaðan texta báru ótrúlega lítinn árangur. Sömu villurnar voru endurteknar sí og æ. Ég hef ekki enn fundið leið til að fá blaðamenn til að hverfa frá meinlokum sínum. Þótt íslenzka sé atvinnutæki þeirra.
Einhvern tíma á þessu skeiði hannaði ég tölvukeyrt dagbókakerfi blaðamanna. Á daglegum ritstjórnarfundum voru verkefni skráð á starfsmenn og sáust síðan í dagbók hvers manns. Þetta var á frumbýlingsárum tölvunnar og tölvukeyrð dagbókakerfi voru þá ekki komin í almenna útgáfu. Ég samdi hugbúnaðinn á einföldu forritunarmáli, HyperTalk. Þessar dagbækur voru í notkun á DV í meira en áratug. Þær auðvelduðu verkstjórn og hjálpuðu blaðamönnum að muna verkefni sín. Ýmis aukageta var í dagbókakerfinu. Þar var til dæmis hægt að raða verkefnum í mikilvægisröð. Ljósmyndarar fengu myndbeiðnir úr kerfinu.