Orðinn of breiður.

Greinar

Sjálfstæðisflokkurinn í Kópavogi samþykkti fyrir helgina að bjóða hinum flokkunum til sameiginlegs prófkjörs. Sú leið einfaldar skipulag og kemur í veg fyrir, að fólk geti tekið þátt í prófkjöri hjá fleiri en einum flokki.

Með sameiginlegu prófkjöri er girt fyrir þá margumtöluðu hættu, að pólitískir andstæðingar fari að skipta sér af framboði flokks, nema þá að þeir fórni um leið rétti sínum til áhrifa á framboð eigin flokks.

Ekki má þó skilja þetta svo, að mikil hætta sé á ferðum. Í opnum prófkjörum, sem hingað til hafa farið fram, hefur ekki borið á þátttöku annarra flokka manna. Og í engu tilviki hefur slík þáttaka haft áhrif á röð frambjóðenda.

Opnu prófkjörin hafa hins vegar breikkað þá flokka, sem þeim hafa beitt. Þau hafa virkjað fólk, sem er að öðru leyti tregt til formlegrar þátttöku í starfi flokka og verður ekki fáanlegt til að undirrita inntökubeiðnir í flokka.

Þegar Jóhann Hafstein var formaður Sjálfstæðisflokksins, vitnaði hann í biblíuna og sagði: “Í húsi föður míns eru margar vistarverur”. Í þeim anda mun Sjálfstæðisflokkurinn á Seltjarnarnesi áfram hafa opið prófkjör.

“Hvort einstaka hægri krati eða framsóknarmaður tekur þátt, skiptir litlu máli. Slíkir vega lítt sem ekkert í heildarniðurstöðu prófkjörs. Aðalatriðið er að fá fjöldann til samstarfs,” sagði Magnús Erlendsson, forseti bæjarstjórnar á Nesinu.

Vandamál opinna prófkjara eru allt önnur en þau, sem hatursmenn þeirra halda á lofti. Þau felast í, að þátttakendur opinna prófkjara hugsa að meðaltali öðruvísi en þáttakendur lokaðra prófkjara og breikka þannig viðkomandi flokk.

Lokuð prófkjör efla gengi þeirra frambjóðenda, sem höfða til flokksbundinna manna. Opin prófkjör efla hins vegar gengi þeirra, sem höfða til almennra kjósenda flokksins. Á þessu getur í reynd orðið töluverður munur.

Sjálfstæðisflokkurinn í Reykjavík er skólabókardæmi um þetta ástand. Þar hefur tögl og hagldir hópur manna í kringum svonefnt flokkseigendafélag. Styrkur hópsins er meðal flokksbundinna, en ekki meðal almennra kjósenda flokksins.

Nú geta vel verið viss takmörk fyrir hversu breiður einn flokkur getur orðið, auk þess sem lýðræðislega er æskilegt, að rúm sé fyrir fleiri flokka en einn í Reykjavík! Breiður flokkur lætur síður að stjórn.

Sjálfstæðisflokkurinn hefur lengi verið breiður flokkur, sem í vaxandi mæli hefur ekki látið að stjórn þeirra, sem eru við völd í veigamestu stofnunum flokksins. Þannig styðja kjósendur flokksins ríkisstjórn, sem flokkskerfið er andvígt.

Lokað prófkjör er fullkomlega lýðræðisleg leið til að leysa þennan vanda. Það þrengir flokkinn niður í stærð, sem frá sjónarmiði flokkseigendafélags er líklegri til að verða viðráðanleg og sæmilega einhuga.

Lokað prófkjör er rökrétt afleiðing þeirrar grundvallarstefnu flokkseigendafélagsins, að betra sé að hafa mikil völd í litlum flokki en lítil völd í miklum flokki. Á stefnunni byggist óbeitin á opnum prófkjörum.

Í þessari umferð reyndist ekki unnt að loka prófkjörinu alveg. Það verður aðeins hálflokað, þegar frambjóðendur verða valdir til borgarstjórnar í Reykjavík. Í næstu umferð tekst kannski hið rökrétta, – að loka prófkjörinu alveg.

Jónas Kristjánsson

Dagblaðið