Þegar “allir” vita.

Greinar

Næst á eftir landbúnaði er einna leiðinlegast að fjalla um Flugleiðir hér í leiðurum. Á þessum tveimur sviðum er einna erfiðast að koma að heilbrigðri skynsemi, því að við freka og rökhelda þrýstihópa er að etja.

Talsmenn slíkra þrýstihópa láta sér ekki nægja lítt rökstuddar fullyrðingar að hætti stjórnmálamanna, heldur eru þeir ófeimnir við að setja fram alrangar fullyrðingar þvert á allar staðreyndir málsins, svo sem nýleg dæmi sanna.

Sem stjórnmálamaður segir Steingrímur Hermannsson flugmálaráðherra, að tap sé á innanlandsflugi Flugleiða. Þessi fullyrðing er ekki beinlínis röng, heldur aðeins óviss, því að ráðherrann er að tala um bókhaldsatriði.

Enginn veit, hvort Snorri Sturluson hefur kostað sjónvarpið tvær eða fimm milljónir króna. Það fer eftir, hvernig reiknað er. Hið sama gildir um innanlandsflug Flugleiða. Ekki er sama, hvar fastakostnaðurinn er bókfærður.

Síðan talsmenn Flugleiða fóru að taka aukinn þátt í umræðu um flugfrelsi, hefur umræðan færzt á lægra svið. Leiðinlegt er að þurfa að leggja sig niður við að hrekja falsið, en þó verður stundum ekki hjá því komizt.

Einn kunnasti flugmaður fyrirtækisins sagði nýlega í blaði: “Eins og allir þekkja hefur hin svonefnda “Open-Sky”-stefna Carters … orðið til þess, að nánast öll flugfélög þar vestra hafa orðið að draga saman seglin.”

Málsgrein flugmannsins hefst á orðunum “Eins og ALLIR þekkja”. Lífsreyndir menn staðnæmast jafnan við þennan blákulda, sem mjög oft er skeytt framan við fullyrðingar, er raunar engir þekkja, af því að þær eru kolrangar.

Flugfrelsið í Bandaríkjunum hefur þvert á móti aukið flugveltuna. Mörg gömul offitu-flugfélög hafa orðið að draga saman seglin, en hjá yngri og dugmeiri flugfélögum hefur aukningin orðið mun meiri en sem því nemur.

Þar gildir gamla, góða markaðsreglan, að lækkað verð hefur í för með sér aukinn farþegafjölda langt umfram lækkaða verðið. Heildarveltan eykst í flugi, flugfélög vanda betur reksturinn og neytendur njóta góðs.

Einn framkvæmdastjóra Flugleiða sagði nýlega í blaði: “Ég mun … sýna fram á, að “flugkakan” … um áætlunarflugið er ekki til skiptanna og að samgöngum okkar sé betur borgið með einu sterku félagi heldur en mörgum veikburða.”

Gallinn við þessa röksemdafærslu er, að ekki er til nein tiltölulega fastmótuð “flugkaka”. Aukin samkeppni lækkar verð og stækkar flugkökuna, svo sem reynslan hefur sýnt í amerísku flugi og á öðrum sviðum lífsbaráttu í viðskiptum.

Þegar Icecargo fór að fljúga á lágum fargjöldum til Amsterdam og Flugleiðir fóru að herma eftir, var hin svonefnda “flugkaka” stækkuð. Ef Arnarflug fær að fljúga til Evrópu, mun þessi kaka stækka enn frekar.

Vel getur verið, að talsmenn Flugleiða geti hermt upp á núverandi ríkisstjórn heimskuleg einokunarloforð, sem löngu liðin ríkisstjórn gaf í trássi við hagsmuni almennings og íslenzks flugs. Enda gera þrýstarar Flugleiða það óspart.

Því má skjóta á ská þeirri ábendingu til stjórnmálamanna í valdastólum, að þeir eru þar til að gæta hagsmuna almennings, efla samkeppni og auka íslenzkt flug, en ekki til að þjónusta illa stjórnuð fyrirtæki.

Jónas Kristjánsson

Dagblaðið