Tveir með reisn.

Greinar

Þátttaka í stjórnmálum er ekki alltaf örugg leið til óvinsælda. Ráðherrarnir Gunnar Thoroddsen og Ólafur Jóhannesson afsönnuðu það í skoðanakönnun Dagblaðsins, þar sem fólk var spurt, hvaða stjórnmálamann það teldi merkastan.

Gunnar Thoroddsen forsætisráðherra varð raunar langefstur með 160 atkvæði af 600 í fyrsta sæti og samtals 218 atkvæði í þau þrjú sæti, sem gefinn var kostur á. Samkvæmt þessu er Gunnar í miklum metum hjá rúmum þriðjungi kjósenda.

Ólafur Jóhannesson utanríkisráðherra og fyrrverandi forsætisráðherra fylgdi í humátt á eftir Gunnari með 82 atkvæði í fyrsta sæti og samtals 142 atkvæði í sætin þrjú. Ólafur er þannig í miklu áliti hjá tæpum fjórðungi kjósenda.

Hvorugur þessara manna er forustumaður stjórnmálaflokks. Ólafur hefur afsalað völdum í Framsóknarflokknum til Steingríms Hermannssonar og Gunnari Thoroddsen hefur aldrei verið hleypt að raunverulegum völdum í Sjálfstæðisflokknum.

Vinsældir Gunnars eru enn athyglisverðari fyrir þá sök, að hann situr ekki á friðarstóli í flokki sínum eins og Ólafur, heldur er hann uppreisnarmaður, sem þarf að sæta versta umtali íslenzkra stjórnmálamanna.

Um aðra er ekki að ræða í þessum samanburði. Stökkið frá þessum tveimur vinsældakóngum niður í venjulega flokksformenn og ráðherra er svo gífurlegt, að það sker beinlínis í augu. Að Gunnari og Ólafi frátöldum ríkir tómið eitt.

Alþýðubandalagið virðist þó hafa komizt lengst í kynslóðaskiptum í forustunni. Af stjórnmálamönnum þess er hinn nýlegi formaður, Svavar Gestsson, langefstur, í þriðja sæti með 54 atkvæði samtals. Þar skyggir enginn flokksbróðir á hann.

Hinir tveir ungu ráðherrar Alþýðubandalagsins eru í hæfilegri fjarlægð, en þó langt ofar öðrum flokksmönnum. Hjörleifur Guttormsson er í sjöunda sæti með 23 atkvæði og Ragnar Arnalds í níunda sæti með 15 atkvæði.

Steingrímur Hermannsson, formaður Framsóknarflokksins, geldur hugsanlega vinsælda forvera síns. Hann er þó í fjórða sæti könnunarinnar með 40 atkvæði og ekki einn einasta annan framsóknarmann við sjóndeildarhringinn.

Einn þekktasti uppreisnarmaður íslenzkra stjórnmála, Albert Guðmundsson, er í fimmta sæti með 28 atkvæði. Hann er annar af tveimur lítt þægum sjálfstæðismönnum, sem fær í könnuninni betri útkomu en sjálfur flokksformaðurinn.

Geir Hallgrímsson getur engan veginn talizt sæmdur af sjötta sætinu á 28 atkvæðum, þar af aðeins 9 í efsta sæti. Hann er þó formaður langsamlega fjölmennasta og vinsælasta stjórnmálaflokks í landinu.

Af sjálfstæðismönnum koma næstir ráðherrarnir Friðjón Þórðarson með 8 atkvæði og Pálmi Jónsson með 7 atkvæði, svo og Matthías Bjarnason með 7 atkvæð. Þannig mega uppreisnarmenn einnig vel við una í annarri víglínu.

Hinn flokkurinn, sem á við forustuvanda að stríða, er Alþýðuflokkurinn, þar sem Vilmundur Gylfason náði áttunda sætinu á 17 atkvæðum meðan Kjartan Jóhannsson flokksformaður varð að sætta sig við tíunda sætið á 15 atkvæðum.

Skoðanakönnun Dagblaðsins bendir til, að þessir 13 nafngreindu menn séu hinir raunverulegu stjórnmálamenn landsins og að þar af séu aðeins tveir, sem hafi umtalsverða reisn umfram hið gráa meðallag.

Jónas Kristjánsson

Dagblaðið