Akranes tekur forustuna.

Greinar

Sameiginlegt prófkjör stjórnmálaflokkanna fyrir sveitarstjórnarkosningarnar verður haldið á Akranesi í janúar. Þátttakendur fá afhenta kjörseðla með nöfnum frambjóðenda allra flokka, en mega aðeins merkja við hjá einum flokki.

Þetta er mikil framför frá þeim prófkjörum, sem hingað til hafa verið haldin. Það auðveldar flokkunum að hafa þau opin almennum stuðningsmönnum, sem ekki vilja gerast formlegir félagsmenn með skírteini og stimpil.

Með sameiginlegu prófkjöri er tryggt, að kjósendur taki aðeins þátt í prófkjöri eins flokks, hafi aðeins áhrif á skipun þess framboðslista, sem þeir hyggjast styðja. Þar með er úr sögunni veigamikil gagnrýni á opin prófkjör.

Hingað til hafa opin prófkjör verið auðveldari hjá fjölmennum stjórnmálaflokkum eins og Sjálfstæðisflokknum heldur en fámennum á borð við Alþýðuflokkinn. Akranesfordæmið gerir öllum flokkum kleift að hafa opið prófkjör.

Menn, sem fara milli flokka í prófkjöri, hafa ekki haft marktæk áhrif í Sjálfstæðisflokknum, af því að þeir hafa drukknað í fjöldanum. Hins vegar er hugsanlegt, að slíkir hlaupamenn hafi getað haft áhrif hjá Alþýðuflokknum.

Samkomulag stjórnmálaflokkanna á Akranesi er því mjög til fyrirmyndar. Það sýnir, að til eru framámenn í stjórnmálum, sem eru reiðubúnir til samstarfs yfir flokksmörk til að efla forsendur lýðræðis í landinu.

Næsta skref á þessari lýðræðisbraut er að fá alþingi til að sameina prófkjör og kosningar með því að lögfesta – eða lögleyfa að minnsta kosti – óraðaða lista, svo að kjósendur lista geti sjálfir raðað frambjóðendum hans.

Hingað til hafa verið dæmi þess, að þeir, sem hafa orðið undir í prófkjöri, reynast linir í baráttu fyrir þann lista, sem þeir hafa tekið þátt í að velja. Þetta hefur verið notað gegn prófkjörum, bæði hinum opnu og lokuðu.

Ef enginn veit niðurstöðu prófkjörs, fyrr en niðurstaða sjálfra kosninganna er fengin, væri afnumin hin síðari af tveimur mótbárum, sem prófkjör hafa hingað til þurft að sæta. Og lýðræðið fengi byr undir báða vængi.

Samkomulag stjórnmálaflokkanna á Akranesi er mikilvægur frelsiskyndill í skammdeginu, ánægjuleg andstæða auvirðilegs og fyrirlitins flótta Sjálfstæðisflokksins í Reykjavík frá áralangri og flekklausri hefð opinna prófkjara

Loks hugsað um aldraða.

Stofnun Öldrunarráðs Íslands markar tímamót í tilraunum manna til að koma á endurbótum í málaflokki, sem hingað til hefur verið sorglega vanræktur. Í ráðinu hefur náðst samstarf allra aðila, sem þegar vinna að málum aldraðra.

Jafnframt hafa þingmenn úr ýmsum flokkum tekið vel tillögu Péturs Sigurðssonar og fleiri þingmanna Sjálfstæðisflokksins um, að alþingi skipi sjö manna nefnd til að sjá um aðgerðir á ári aldraðra, sem verði 1982.

Þá hefur Helgi Seljan endurflutt tillögu sína um, að reynt verði að nýta bújarðir, sérstaklega ríkisjarðir, sem dvalarheimili fyrir aldraða. Og loks starfar um þessar mundir stjórnskipuð nefnd að frumvarpsbálki um öldrunarmál.

Af öllu þessu má sjá, að senn má vona, að hin vanræktu öldrunarmál komist í sviðsljósið.

Jónas Kristjánsson

Dagblaðið