Kröfur hins sterka.

Greinar

Hreyfingin gegn auknum kjarnorkuviðbúnaði á Vesturlöndum byggist meðal annars á tveimur röngum forsendum. Hin fyrri er, að Sovétríkin hafi látið af heimsvaldastefnu, og hin síðari, að jafnvægi sé í kjarnorkuviðbúnaði.

Ráðamenn Sovétríkjanna eru engan veginn stríðsóðir. Og þeir eru hættir að lesa Marx og Lenín kvölds og morgna. En eigi að síður eru þeir enn sannfærðir um, að þeim beri að vinna að óhjákvæmilegum heimssigri skipulags þeirra.

Heimsvaldastefna Sovétríkjanna kemur í bylgjum eftir aðstæðum hverju sinni. Tímabilum útþenslu fylgja tímabil slökunar, þegar sáð er til nýrrar útþenslu, meðal annars með því að svæfa Vesturlönd á verðinum.

Einn mikilvægasti þáttur þessarar heimsvaldastefnu er hinn óbeini þrýstingur. Sovétstjórnin þarf ekki að senda hermenn til Vestur-Evrópu til að ná þar ítökum. Henni nægir að sýna fram á hernaðarlega yfirburði.

Nú er í hámarki ein af mörgum friðarsóknum Sovétríkjanna. Hún miðar eins og hinar að því að gera Vestur-Evrópu hálf-hlutlausa, reka fleyg milli hennar og Norður-Ameríku, til dæmis með því að gera Vestur-Evrópu kjarnorkuvopnalausa.

Því hernaðarlega veikari sem Vestur-Evrópa verður og því þreyttari sem Bandaríkjamenn verða á að sjá um varnir Evrópu, þeim mun meira munu ráðamenn Vestur-Evrópu hneigjast að tillitssemi við hagsmuni Sovétríkjanna.

Litli kallinn, sem lifir í skugga hins stóra og vopnaða, neyðist alltaf til að taka tillit til hagsmuna hins stóra. Hann verður fyrst að haga hinum ytri samskiptum samkvæmt því og síðan einnig breyta eigin heimilishögum.

Fásinna er að halda, að Sovétríkin muni láta hlutlausa eða hálf-hlutlausa Vestur-Evrópu í friði. Ráðamönnum Sovétríkjanna mun framvegis eins og nú telja sér stafa hætta af velmegun og auði Vesturlanda og sér í lagi af hugsjónum þeirra.

Til að vernda fanga sína fyrir hugsjónum Vesturlanda, hugsanahætti og hagkerfi, þykjast ráðamenn Sovétríkjanna þurfa að ná skugga sínum á loft í Vestur-Evrópu, bæði til að hemja hættuna við rætur hennar og hindra útþenslu hennar.

Eina leiðin til að halda skugga Sovétríkjanna frá Vestur-Evrópu er að hafa aðstöðu til að svara hernaðarlega í sömu mynt. Hernaðarlegt jafnvægi er hið eina, sem heldur aftur af heimsvaldastefnu ráðamanna Sovétríkjanna.

Langt er síðan Bandaríkin höfðu yfirburði í kjarnorkuviðbúnaði. Upp á síðkastið eru það Sovétríkin, sem hvað eftir annað hafa verið fyrst til að færa kjarnorkuviðbúnað á nýtt og stærra svið. SS-eldflaugarnar eru nýjasta dæmið.

Athyglisvert er, að félagar heimsfriðarráða og lúterskra friðarráða og annarra samtaka nytsamra sakleysingja fóru engar gönguferðir né héldu neina mótmælafundi, þegar Sovétríkin beindu þessum meðaldrægu kjarnorkuflaugum að Vestur-Evrópu.

Hitt er svo rétt, að jafnvægi í viðbúnaði þarf ekki nauðsynlega að felast í tölulegum samanburði kjarnaodda og annarra hergagna. Vesturlönd geta haldið jafnvægi með færri tólum, ef þau nægja til að halda aftur af Sovétstjórninni.

En óþægilegast er að hugsa til, að ráðamenn Sovétríkjanna velti fyrir sér, hvort þeir muni næstu árin hafa mátt til að veita Vesturlöndum þvílíkt högg, að Sovétríkin muni lifa af svarið. Slíkum mætti fylgir nefnilega kröfuharka.

Jónas Kristjánsson

Dagblaðið