Ritskoðun Pósts og síma.

Greinar

Ekki er nóg forsmánin, að póstburðarfólk hafi neitað að bera út blað, heldur er haldinn fundur með aðstandendum þess, þar sem óskað er, að þeir biðjist afsökunar á skoðunum sínum! Þetta gerðist ekki í Uganda, heldur í Kópavogi.

Skyldum við næst eiga von á, að einhver rútubílstjórinn og sérleyfishafinn neiti að dreifa einhverju dagblaðinu, til dæmis af því að það hafi verið andvígt nýjustu umsókn sérleyfishafa um tiltekna prósentuhækkun fargjalda?

Það er ekki í verkahring Pósts og síma eða einstakra starfsmanna og sérleyfishafa þessarar einkaréttarstofnunar að ákveða, hvort efni, sem fer um hendur hennar, feli í sér réttar skoðanir eða rangar, hæfar skoðanir eða vanhæfar.

Pósti og síma hefur sem einkaréttarstofnun verið falið að sjá um dreifingu hljóðvarps, sjónvarps og prentaðs máls, hvort sem eitthvað af þessu efni er stofnuninni eða einstökum starfsmönnum hennar að skapi.

Allt öðrum stofnunum í þjóðfélaginu hefur verið falið að ákveða, hvort skoðanir varði við lög eða ekki. Á það reynir mjög sjaldan, af því að samkeppni ríkir í prentuðu máli og auðvelt er að koma gagnskoðunum á framfæri.

Hafi starfsmenn Pósts og síma eitthvað við að athuga gagnrýni blaðs á fáránlega lélegum útburði og nenni þeir ekki að koma svörum sínum á framfæri, geta þeir snúið sér til dómstóla. En þeir geta ekki tekið að sér dómsvaldið.

Sem harðskeyttur samningsaðili á vinnumarkaði þarf prentarastéttin stundum að sæta harðvítugri gagnrýni í prentuðum fjölmiðlum. Aldrei hefur samt heyrzt, að prentarar teldu í sínum verkahring að ritskoða ósanngjarna gagnrýni.

Sennilega er ekki hægt að ætlast til, að allt starfsfólk Pósts og síma hafi stjórnarskrána á rúmstokknum. Hins vegar á að vera hægt að krefjast af þeim, sem komast þar til mannvirðinga, að þeir láti Kópavogsatburði ekki gerast.

Fyrstu viðbrögð Pósts og síma við ritskoðun póstburðarfólks í Kópavogi voru þau, að hún væri að vísu ekki rétta leiðin, en skiljanlega þætti fólkinu sárt að þurfa sjálft að bera út gagnrýni á eigin verk!

Lin og léleg viðbrögð ráðamanna Pósts og síma, allt frá umdæmisstjóra upp í forstjóra, eru dæmi um, að þeir eru ekki hæfir til að halda uppi einkarétti stofnunarinnar. Og ráðherra er samsekur, nema hann veiti þeim ærlegt tiltal.

Getuleysi Pósts og síma.

Athyglisvert er, að dagblöðin forðast eftir mætti að nota þjónustu Pósts og síma. Í þéttbýli nota þau eigin dreifingarkerfi og að nokkru leyti einnig í dreifingu frá Reykjavík til annarra þéttbýlisstaða.

Sumpart stafar þetta af því, að þjónusta Pósts og síma er of dýr, jafnvel þótt sérstakir taxtar gildi um prentað mál. En einkum er þessi þjónusta að hluta til of svifasein fyrir blöð, sem þurfa að vera samdægurs á leiðarenda.

Þessi viðhorf dagblaðanna eru dæmi um, að mikilvægir þættir íslenzkrar póstþjónustu eru í ólestri, svo sem oftast vill verða, þegar einkaréttarstofnun nýtur hvorki aðhalds að utan né stjórnunar að innan.

Jónas Kristjánsson

Dagblaðið