Landsfundar-pattið.

Greinar

Niðurstaðan var patt. Landsfundur sjálfstæðismanna var skemmtileg uppákoma í skammdeginu. Þar fengu armar flokksins tækifæri til liðskönnunar og burtreiða, án þess að úr neinu væri skorið, sem áhorfendum finnst máli skipta.

Liðskönnun og burtreiðar magna samstöðu innan flokksbrota og deyfa hana milli þeirra. Á þann hátt dýpkaði landsfundurinn klofning flokksins. Menn riðu af þingi hálfu sannfærðari en áður um, að sannleikurinn væri í þeirra eigin farangri.

Armarnir hafa náð fastara formi. Í flokksbrotunum hafa risið liðþjálfar og marskálkar, eins konar vísir apparats. Menn brýna vopn sín í kyrrþey og bíða harðvítugri burtreiða í prófkjörum og almennum kosningum.

Sambræðslur urðu með ýmsum hætti á landsfundinum. Flokkseigendafélagið og miðjumenn, þ.e. almennir andstæðingar ríkisstjórnarinnar, tóku saman höndum um vantraust á ríkisstjórnina og um endurkjör Geirs Hallgrímssonar formanns.

Hins vegar náðu miðjumenn og stjórnarsinnar saman í kosningu Friðriks Sophussonar varaformanns. Og loks stóðu allir armar saman að því að vísa frá svonefndum handjárnum á stjórnarsinna og fela þann vanda miðstjórn í hendur.

Öll flokksbrotin í burtreiðunum fengu nokkurn árangur. Beztur var árangur Geirs Hallgrímssonar, sem náði tveimur þriðju hlutum atkvæða til formennsku. Óhjákvæmilegt er að telja það góðan árangur í klofnum flokki.

Landsfundurinn vottaði Geir traust starfandi flokksmanna. Það vegur mjög á móti því vantrausti, sem almennir kjósendur flokksins hafa sýnt Geir í skoðanakönnunum, enda eru starfandi flokksmenn áhrifameiri en almennir kjósendur.

Stjórnarsinnar náðu sínum fjórðungi atkvæða, bæði í formannskjöri og í yfirlýsingu um vantraust á ríkisstjórnina. Raðir þeirra riðluðust ekki undir þrýstingi og þeir gátu sýnt frambærilegt formannsefni í Pálma Jónssyni.

Þá eignaðist Sjálfstæðisflokkurinn sinn Hamlet. – Að vera eða vera ekki – ræða Ellert B. Schram mun vafalaust varðveitast í ræðusögu Íslands sem dæmi um, hversu mikið drama og hversu mikil tilfinning getur leitt til niðurstöðu í núlli.

Ekki má þó gleyma, að framtak Ellerts eða framtaksleysi dró annars vegar úr líkum á öðru framboði miðjumanna til formanns og stuðlaði hins vegar að því andrúmslofti, sem síðar kom fram í varaformannskjöri Friðriks Sophussonar.

Lítil völd fylgja stöðu varaformanns Sjálfstæðisflokksins. Hún gefur ekki einu sinni öruggt fyrirheit um síðari formennsku. En hún vísar þó fram á veginn til kynslóðaskipta, – hefur eins konar táknrænt gildi.

Miðjumenn hagnýttu sér hina þægilegu stöðu í miðjunni og fengu atkvæði ríkisstjórnarsinna til að koma sínum frambjóðanda upp fyrir fulltrúa flokkseigendafélagsins í kosningunni um varaformann Sjálfstæðisflokksins.

Þar með tilkynntu miðjumenn, að valdamiðstöðin í flokknum skyldi ekki fá öll völd í sínar hendur, heldur mundu miðjumenn vera þar þátttakendur, sem taka yrði tillit til, þegar gengið verður til burtreiða á nýjan leik.

Ríkisstjórnin mun starfa áfram, flokkseigendafélagið mun áfram vilja aukin völd í minnkuðum flokki og miðjumenn munu áfram reyna að þreyja þorrann með drauminn um óklofinn stórflokk einhvern tíma í fjarlægri framtíð.

Jónas Kristjánsson

Dagblaðið