Pólitískir kjarnaoddar.

Greinar

Heimsveldin tvö hafa þegar náð jafnvægi í ógnun kjarnorkuhernaðar. Þau geta lagt jörðina í eyði, ekki aðeins einu sinni og ekki bara tvisvar. Frekara kapphlaup þeirra í kjarnorkuviðbúnaði er að verulegu leyti sóun fjármuna.

Skiljanlegt er, að þau vilji smám saman endurnýja þessi tól, bæði með því að gera hittni þeirra nákvæmari og með því að vernda þau fyrir óvæntri skyndiárás hins heimsveldisins. Hvort tveggja ætti að draga úr árásarhneigð hins aðilans.

En Sovétríkin bæta ekki neitt að ráði stöðu sína í kapphlaupi kjarnorkuviðbúnaðar, þegar þau eru nú að koma sér upp 750 nýjum kjarnaoddum í meðaldrægum SS-20 eldflaugum, sem ná til Vestur-Evrópu, en ekki til Bandaríkjanna.

Allar langdrægar eldflaugar Sovétríkjanna ná til Evrópu, þótt áherzlan hafi verið lögð á, að þær nái til Bandaríkjanna. Kjarnaoddar þeirra geta lagt bæði Evrópu og Bandaríkin í eyði. SS-20 eldflaugarnar eru því hernaðarlega óþarfar.

Þegar menn tala um vopn, hneigjast þeir til að flokka þau í ákveðna pakka og tala um jafnvægi í hverjum pakka fyrir sig. Þessi flokkun hindrar þá í að skilja sveigjanleika á borð við notkun langdrægra eldflauga gegn meðalfjarlægum skotmörkum.

Vesturevrópskir friðarsinnar höfðu hægt um sig, þegar Sovétríkin hófu að koma sér upp þessum 750 kjarnaoddum, sem beint er gegn Vestur-Evrópu. Við tækjum meira mark á þeim nú, ef þeir hefðu þá mótmælt hressilega.

SS-20 eldflaugarnar sýna í hnotskurn tvískinnung friðarhreyfinga Vestur-Evrópu. Gagnrýni á flaugarnar er nú seint og um síðir bætt til málamynda aftan við mótmæli þessara hreyfinga gegn meðaldrægum eldflaugum Bandaríkjanna.

Miklu nær væri vesturevrópskum friðarsinnum að hugleiða, hvers vegna í ósköpunum Sovétríkin hafa komið sér upp rándýrum útbúnaði, sem breytir ekki sjálfsmorðsjafnvægi vígbúnaðarkapphlaupsins og er því hernaðarlega óþarfur.

SS-20 flaugarnar eru ekki dæmi um, að ráðamenn Sovétríkjanna séu skyndilega orðnir stríðsóðir. Þær eru raunar ekki hernaðarlegar, heldur pólitískar. Með þeim ætla heimsvaldasinnar einfaldlega að skjóta Vestur-Evrópubúum skelk í bringu.

Einhvern veginn virðist meiri sálræn ógnun felast í sérsmíðuðum vopnum, sem eingöngu er ætlað að hafa þig að skotmarki, heldur en í öflugri vopnum, sem geta haft bæði þig og hinn bandaríska bandamann að skotmarki.

Þetta hefur haft tilætluð áhrif, einkum í Bretlandi, Hollandi og Vestur-Þýzkalandi. Friðarhreyfingar nytsamra sakleysingja fylla raðir sínar fólki, sem finnst staðbundin kjarnorkustyrjöld vera á allra næsta leiti í Evrópu.

Markmiðið er, að þessar hreyfingar verði svo öflugar, að þær sveigi ríkisstjórnir Vestur-Evrópu til einhliða samdráttar í vígbúnaði, svo að Sovétríkin geti hægar beitt Vestur-Evrópu pólitískum þrýstingi.

Hitt gerir minna til, þótt þetta leiði til töluverðrar fækkunar hinna bandarísku, meðaldrægu Pershing-2 eldflauga með 570 kjarnaoddum, sem Atlantshafsbandalagið vill koma fyrir í Vestur-Evrópu á þessum áratug sem svar við SS-20.

Pershing-áætlunin er nefnilega hernaðarlega jafn óþörf og SS-áætlunin, af því að ekki er unnt að auka gereyðingarmáttinn umfram 100%. Meira máli skiptir, að íbúar Vestur-Evrópu láti Kremlverja ekki taka sig pólitískt á taugum.

Jónas Kristjánsson

Dagblaðið