Marklaus málefni.

Greinar

Þingflokkur sjálfstæðismanna hefur lýst andstöðu við, að fleiri en Flugleiðir fái að stunda áætlunarflug til útlanda. Þessi ályktun var borin Flugráði, þegar það fjallaði um beiðni Arnarflugs um flug til nokkurra borga Evrópu.

Eins og oftast, þegar á reynir, var þingflokkur sjálfstæðismanna andvígur frjálsri samkeppni og hlynntur einokun, einkum þó þeirri einokun, sem rekin er á kostnað skattgreiðenda. Um slík mál er mestur einhugur í þingflokknum.

Tveir áratugir eru síðan þingflokkur sjálfstæðismanna studdi frjálsa samkeppni, þegar hann féllst á tillögur Gylfa Þ. Gíslasonar, efnahagsráðherra í viðreisnarstjórninni. Síðan hefur myrkrið aftur skollið á í flokknum.

Þingmenn Sjálfstæðisflokksins eru hlynntir Framkvæmdastofnun ríkisins, svo framarlega sem þeir sitji þar sjálfir og skammti gjafafé úr vösum skattgreiðenda. Þeir vilja veg ríkisins sem mestan, svo að skömmtunarstjórar hafi sem mest völd.

Í ljósi hinna áþreifanlegu staðreynda er einkennilegt að sjá mörg hundruð fulltrúa einróma láta hafa sig að fíflum, landsfund eftir landsfund, með því að samþykkja hástemmdar yfirlýsingar um frjálsa verzlun og afnám einokunar.

Stefna Sjálfstæðisflokksins er marklaus í öllum meginatriðum og hefur lengi verið svo. Samþykktir nýafstaðins landsfundar eru enn eitt dæmið um prump, sem þingflokkur sjálfstæðismanna mun ekki taka hið minnsta mark á.

Þess vegna er broslegt að heyra bláeyga sakleysingja kvarta um, að á landsfundi tali menn meira um menn en málefni og að ágreiningurinn í flokknum sé meira um menn en málefni, sem menn séu í stórum dráttum sammála um.

Það er ósköp ódýrt að vera á landsfundi hjartanlega sammála um ágæti einhverra málefna, sem þingmenn flokksins taka svo ekki minnsta mark á, þegar þeir hverfa aftur til síns sósíalíska raunveruleika.

Svo grunnmúruð er einokunar- og ríkisdýrkunin í þingflokki sjálfstæðismanna, að hið lengsta, sem Albert Guðmundsson getur gengið í uppreisn, er að sitja hjá í Flugráði, þegar starfsmenn Flugleiða ákveða þar framhald einokunar.

Marklaust Flugráð.

Algengasta tegund siðblindu hér á landi er sú trú margra, að þeir megi vera dómarar í eigin sök. Séu þeir gagnrýndir, hafa þeir uppi langt mál um efnisatriði, en virðast ekki skilja hinar lýðræðislegu forsendur.

Dagblaðið benti nýlega á, að háttsettur embættismaður rannsóknarlögreglunnar tók að sér að úrskurða í opinberu máli yfirmanns síns og undirmanna. Í svörum hans kom ekki fram neinn skilningur á hinu raunverulega vandamáli.

Tveir starfsmenn Flugleiða greiddu um daginn atkvæði í Flugráði gegn veitingu flugleyfis til Arnarflugs. Annar þeirra hefur síðan sagt, að þeir hafi ekki verið að gæta hagsmuna Flugleiða, heldur tekið efnislega afstöðu.

Í lýðræðisríkjum, öðrum en Íslandi, kæmi ekki til greina, að starfsmenn eins flugfélags séu settir í þann vanda að greiða atkvæði um flugleyfi annars. Séu þeir af tæknilegum ástæðum í slíkri valdastofnun, verða þeir að víkja í atkvæðagreiðslu.

Enda hefur Steingrímur Hermannsson flugmálaráðherra réttilega lýst yfir, að ekkert mark sé takandi á meðferð Flugráðs á þessu máli.

Jónas Kristjánsson

Dagblaðið