Samræmdir embættismenn.

Greinar

Ein árátta embættismanna er að steypa allt og alla í sama mót. Meðal annars hugsa þeir með hryllingi til þess, að nokkur blæbrigðamunur kunni að vera á starfi áfangaskóla. Úr því hafa þeir nú bætt á venjulegan hátt, með reglugerð.

Með reglugerðinni er ákveðið, að einkunnir skuli gefa í tíu tölustöfum, en ekki í fjórum bókstöfum, svo sem tíðkazt hefur í mörgum þessara skóla. Er þetta til samræmis við grunnskóla og háskóla, sem nota tölustafi.

Rökstyðja má, að of mikil fábreytni sé í fjórum einkunnakostum, einkum í efri endanum, og að hún auki leti kennara við að semja próf og meta úrlausnir. Auk þess skilja flestir betur tölustafi en bókstafi sem mælikvarða.

Á hitt má einnig líta, að bókstafirnir fela í sér fráhvarf frá fyrri einkunnagjöf, sem komin var út í þær öfgar, að heildareinkunn var gefin í eitt þúsund mismunandi stigum, það er í tölum með tveimur aukastöfum.

Mestu máli skiptir þó, að fjölbreytni er til bóta í þessu sem á öðrum sviðum. Með fjölbreytni mótast samanburður og samkeppni. Þá er reynslan látin um að skera úr óvissum atriðum, en ekki reglugerðir úr ráðuneytum.

Rökstyðja má, að betra sé fyrir nemendur að mæta 80% í tímum heldur en 60%. En af hverju þá ekki 100%? Talan 80 er misheppnuð töfraformúla til að samræma mætingaskyldu og akademískt frelsi, tvo ósamræmanlega hluti.

Eðlilegast er, að sums staðar sé mætingaskylda og annars staðar akademískt frelsi í skólum á þessu stigi. Með slíkri fjölbreytni má í háskóla mæla smám saman misjafnan árangur mismunandi aðferða í menntaskólum og fjölbrautaskólum.

Satt að segja eru embættismenn menntamálaráðuneytisins að reyna að láta reglugerð koma í staðinn fyrir reynslu. Þeir eru að skipuleggja atriði, sem alls ekki ætti að skipuleggja, heldur þvert á móti hafa laus í reipunum.

Rökstyðja má, að auðveldara sé að fara milli skóla, ef þeir eru samræmdir. En þá er líka skammt yfir í nýja reglugerð um samræmd próf, enda er áreiðanlega einhver embættismaðurinn að dunda við slíkt í fásinninu.

Samræming milli skóla er marklítil, nema hún feli í sér samræmingu prófa. Á þessu sviði eru gífurlegir möguleikar fyrir verkefnasnauða embættismenn. Og hvernig væri til dæmis að koma á samræmdri stafsetningu fornri?

Íslenzkt þjóðfélag er of samræmt. Reglugerðir eru of margar og of digrar. Embættismenn, sem semja reglugerðir, eru of margir. Hlutirnir eiga ekki að vera einhæfir og staðlaðir, ekki skólarnir frekar en annað.

Háskólinn er farinn að þreifa sig áfram í mati á námsárangri nemenda úr mismunandi tegundum skóla. Smám saman mun safnast þar reynsluforði, sem verður menntaskólum og fjölbrautaskólum gagnlegri en reglugerðir úr ráðuneyti.

Bezt væri að leyfa hverjum skóla að móta sér vinnubrögð og starfsaðferðir. Menn sætta sig betur við ramma, sem þeir taka sjálfir þátt í að smíða. Í þessu sem öðru muni valddreifing leiða til aukins vilja til árangurs.

Þar á ofan er fjölbreytni út af fyrir sig æskilegt markmið. Þjóðfélagið þarf að fá margvíslegt fólk úr skólunum, lærdómsmenn og braskara, uppfinningamenn og sérvitringa, ekki bara samræmda embættismenn fyrir ráðuneytin.

Jónas Kristjánsson

Dagblaðið