Fjötraður sjávarútvegur.

Greinar

Erfiðleikar sjávarútvegs eru fyrst og fremst pólitískir. Stjórnvöld hafa fyrr og síðar reyrt sjávarútveginn í viðjar núllrekstrar. Einkum hefur mismunandi röng gengisskráning verið notuð til að halda afkomunni í núlli.

Í rauninni er sjávarútvegurinn eina innlenda atvinnugreinin, sem er verulega samkeppnishæf í alþjóðlegum samanburði. Nýjustu mælingar sýna, að hann er tvöfalt framleiðnari en iðnaður og fimm sinnum framleiðnari en landbúnaður.

Kraftur sjávarútvegs og fiskiðnaðar sést bezt af því, að þeir hafa getað staðizt samkeppni við hliðstæðar greinar í Noregi, sem njóta ríkisstyrkja, er nema 25% útflutningsverðmætis, svo og í Kanada, þar sem styrkir eru einnig miklir.

Samt eru enn vannýttir margvíslegir möguleikar á aukinni framleiðni í sjávarútvegi. Gífurlegur sparnaður mundi til dæmis fylgja minnkun flotans niður í stærð, er hæfir aflamagninu, sem óhætt er að taka úr fiskveiðilögsögunni.

Í þessu ástandi ábyrgjast opinberir sjóðir lán til togarakaupa, þótt vitað sé, að hin nýju skip muni ekki vinna fyrir vöxtum og afborgunum, og þótt vitað sé, að eigendurnir eru fyrst og fremst að gera út á skattgreiðendur.

Sérhvert nýtt skip, sem bætist í flotann, tekur dálítinn afla frá hinum, án þess að tilkostnaður þeirra minnki. Að baki er hreppapólitíkin, sem löngum hefur reynzt okkur dýr, ekki sízt undir hinum nýja titli byggðastefnu.

Alls konar aðferðir hafa verið reyndar til að mæta þessum vanda. Frægust eru skrapdagakerfið í þorskveiðum og kvótakerfi Í ýmsum öðrum veiðum. En ekkert þessara kerfa tekst á við hinn raunverulega vanda of stórs veiðiflota.

Í nokkur ár hefur oft verið bent á, að taka mætti kúfinn af vanda sjávarútvegsins, í fyrsta lagi með því að láta hann njóta réttrar gengisskráningar og í öðru lagi með því að selja takmarkaðan aðgang að þjóðarauðlind hafsins.

Til þess að vita, hvert sé rétt gengi, verður að gefa það frjálst. Við vitum, að það muni lækka töluvert, útflutningsgreinunum til hagsbóta. Enda er fáránlegt, að þjóð útflutningsverzlunar sé að burðast með fast gengi.

Í nýjum tillögum Verzlunarráðs um eflingu þjóðarhags er bent á, að hindra megi eða draga úr verðhækkunum í kjölfar gengislækkunar með því að draga úr eða afnema aðflutningsgjöld. Þar með væru lífskjörin vernduð.

Á móti tekjutapi ríkissjóðs kæmu svo tekjur af sölu veiðileyfa til sjávarútvegs. Hinar gífurlegu tekjur af gengislækkun mundu gera sjávarútveginum kleift að bjóða í takmarkaðan fjölda veiðileyfa á uppboði.

Ef fjöldi veiðileyfa væri miðaður við hagkvæmustu sókn, mundi hin lélegri og dýrari útgerð vinzast úr, svo sem fyrir löngu er orðið tímabært. En getan til greiðslu veiðileyfa er einmitt mælikvarði á framleiðni útgerðarinnar.

Í sjálfu sér mætti líta á þetta sem þríhyrning með niðurstöðu í núlli, ef ekki væri hreinsunin í sjávarútvegi, minnkun sóknar niður í það, sem hæfir stofnstærðum hverju sinni. Uppboð veiðileyfa er hreinasta leiðin að því marki.

Með slíkri hreinsun, samfara frjálsri verzlun með gjaldeyri, væri unnt að losa sjávarútveginn úr pólitískum fjötrum núllrekstrar, sem hafa herzt svo mjög, að ríkisstjórnin er farin að færa fé milli fiskvinnslugreina.

Jónas Kristjánsson

Dagblaðið