Óháður þjóðarfjölmiðill.

Greinar

Eðlilegt er, að menn verði hvumsa, þegar síðdegisblöðin sameinast í eitt dagblað eftir að hafa eldað saman grátt silfur í rúmlega sex ár. Hvernig má vera unnt að strika svo gersamlega yfir gamlar væringar, sem nú hefur verið gert?

Mikið vatn hefur runnið til sjávar á sex árum. Þróun fjölmiðlunar hefur gert fyrri ágreiningsefni fyrst lítilfjörleg og síðan úrelt. Jafnframt hefur hún hlaðið upp nýjum verkefnum, sem sameinaða krafta þarf til að leysa.

Verkfallið var kornið, sem fyllti mælinn. Það gaf mönnum tíma og tækifæri til að hugleiða, hvort blöðin væru í stakk búin til að bera herkostnað árlegra vinnudeilna og veita lesendum þar á ofan nauðsynlega þjónustu.

Dagblaðamarkaðurinn er enn opinn, þótt blöðum hafi fækkað úr sex í fimm. En hið nýja blað ætlar sér sterkari samkeppnisaðstöðu á þeim markaði en blöðin tvö höfðu áður, hvort í sínu lagi. Við viljum nú sækja fram að nýju.

Bæði blöðin hafa af of veikum fjárhag reynt að halda uppi merki frjálsra og óháðra dagblaða. Með sameiningu kraftanna á enn frekar en áður að vera unnt að veita lesendum óhlutdrægar upplýsingar um staðreyndir og skoðanir.

Hið sameinaða dagblað hefur að meginmarkmiði að starfa óháð flokkum og flokksbrotum, aðilum vinnumarkaðsins, öðrum öflugum valdamiðstöðum þjóðfélagsins og öllum stórum og smáum þrýstihópum, sem láta að sér kveða.

Lesendur fá nú mun stærra blað en þeir fengu áður, án þess að verðið hækki þess vegna. Þeir, sem áður keyptu bæði blöðin, spara sér nú verð eins dagblaðs. Þeir, sem áður keyptu annað blaðið, fá nú meira fyrir peningana.

Sameinaða blaðið er svo stórt, að það rúmar allt efni, sem einkenndi áður hvort blað fyrir sig. Hið eina, sem fellur niður, er tvíverknaðurinn. Lesendur hvors blaðs fá því sitt blað áfram og svo úrval úr hinu til viðbótar.

Við höfum svo ástæðu til að ætla, að sameiningin veiti okkur einnig mátt til að leggja út á nýjar brautir, svo að lesendur fái nýtt efni, sem þeir fengu ekki í blöðunum tveimur. Þannig viljum við stækka lesendahópinn.

Þetta ber að svo skjótlega, að enn hefur ekki tekizt að móta hið sameinaða blað að fullu. Það er sérkennileg og skemmtileg blanda úr foreldrum sínum. Smám saman mun það fá sitt eigið svipmót, þegar það vex úr grasi.

Tæknibreytingar dagblaða og annarra fjölmiðla hafa verið örar á undanförnum árum og verða enn í náinni framtíð. Fjárhagur dagblaðanna tveggja, sem hér hafa sameinazt, leyfði þeim ekki að fylgjast með sem skyldi á þessu sviði.

Með sameiningunni á að verða kleift að afla þeirrar tækni, sem nú og framvegis verður talin nauðsynleg til að hagkvæmni sé í hámarki, tafir sem minnstar, prentgæði sem bezt og upplýsingar til lesenda sem ferskastar.

Verulegur hluti þjóðarinnar fær þetta dagblað í hendur. Við viljum halda góðu sambandi við ykkur öll og fá fleiri í hópinn. Við viljum, að sem flestir sendi línu eða hringi og hjálpi okkur við að móta óháðan og frjálsan þjóðarfjölmiðil.

Við höfum lært af reynslunni og teljum okkur hafa gott vegarnesti til að leggja með lesendum okkar í nýjan áfanga þróunarbrautarinnar. Við vonum, að sú ferð verði okkur öllum sem gagnlegust og ánægjulegust.

Jónas Kristjánsson og Ellert B. Schram.

DV