Núllið í Hvíta húsinu.

Greinar

Henry Kissinger sagði einu sinni um Richard Allen, að hann hefði “næstum þriðja flokks greind”. Þessi sami Allen er nú öryggisráðgjafi Reagans Bandaríkjaforseta. Það er einmitt embættið, sem Kissinger gegndi lengst af fyrir Nixon.

Allen er eitt af mörgum dæmum um hrun bandarískrar utanríkisstefnu á tæplega eins árs valdaferli Reagans. Hvorki forsetinn né nokkur nánustu ráðgjafa hans bera nægt skynbragð á utanríkismál eða hafa á þeim sómasamlegan áhuga.

Reagan hefur loks flutt eina stefnuræðu í utanríkismálum. Á blaðamannafundum hafa svör hans í þeim efnum verið fremur uggvekjandi, að svo miklu leyti sem þau hafa verið meira en marklaus og innihaldslaus froða.

Ekki hefur farið fram hjá áhorfendum að alþjóðamálum, að samband Bandaríkjanna og bandamanna þeirra í Vestur-Evrópu hefur stirðnað á þessu ári. Samt segir Reagan brosandi, að sambúðin sé “betri en nokkru sinni fyrr”.

Bandamennirnir hafa gjarna viljað reyna að setja traust sitt á Alexander Haig utanríkisráðherra vegna reynslu hans sem skrifstofustjóra Nixons á erfiðum tíma og sem yfirhershöfðingja Atlantshafsbandalagsins.

En staða Haigs er svo veik, að hann stendur ekki undir trausti. Hann hefur átt í stöðugum útistöðum við ráðgjafa forsetans og Caspar Weinberger varnarmálaráðherra. Og sífellt ganga sögur um, að embættisdagar hans séu taldir.

Álit Bandaríkjanna í þriðja heiminum hefur beðið hnekki við brottför Carters úr Hvíta húsinu. Kaliforníumennirnir, sem þar ráða nú ríkjum, virðast aldir upp í fyrirlitningu á fátækum, svo sem dæmin frá Rómönsku Ameríku sanna.

Ætla mætti, að þeir telji alla þá vera kommúnista, sem ekki hafa einkasundlaug í garðinum. Þeir framleiða í stórum stíl kommúnista í Nicaragua, Salvador og Guatemala með því að hossa sérhverjum fóla, sem segist vera andkommúnisti.

Undir niðri eru þeir einangrunarsinnar. Þeir láta sundrunguna í Vestur-Evrópu fara í taugarnar á sér. Þeim finnst slæmt að þurfa að kosta til varna þreyttrar álfu, sem þeim finnst skorta viljann til að verja sig sjálf.

Með Kaliforníumönnunum fylgir andrúmsloft, sem eykur ugg í Vestur-Evrópu um, að Bandaríkin muni ekki standa við skuldbindingar sínar í Atlantshafsbandalaginu, heldur hneigist til að heyja “takmarkað kjarnorkustríð” í Evrópu.

Enginn vafi er á, að valdataka Reagans hefur kynt undir stríðsótta í Vestur-Evrópu og gert ríki álfunnar ótraustari bandamenn en þau voru áður. Hinar fyrirhuguðu meðaldrægu kjarnorkueldflaugar geta orðið fórnardýr þessa ótta.

Huglausir og tækifærissinnaðir stjórnmálamenn Vestur-Evrópu eru á nálum út af miklum vexti samtaka kjarnorkuandstæðinga og gífurlegri þáttöku í útifundum þeirra. Í skammsýni reyna þeir að vinna fylgi þessara hópa.

Þegar Kaliforníumennirnir í Hvíta húsinu átta sig betur á, að sumir bandamennirnir í Vestur-Evrópu eru að hlaupa út undan sér af ótta við kjarnorkuandstæðinga, er hætt við, að þeir sannfærist enn frekar í einangrunarstefnunni.

Þannig hefur vítahringurinn verið á þessu ári og getur orðið verri á hinu næsta. Vestur-Evrópumenn mega sumpart sjálfum sér um kenna. En mestur hluti vandans er þó í Hvíta húsinu. Þar verður að nýju að fæðast vestræn forusta.

Jónas Kristjánsson

DV