Dagblað án ríkisstyrks.

Greinar

Ákveðið hefur verið, að Dagblaðið & Vísir æski hvorki ríkisstyrks né þiggi hann, ef boðinn verður. Enda getur dagblað því aðeins talizt óháð og frjálst, að það sé ekki að neinu leyti á framfæri hins opinbera.

Blaðastyrkir eru nú tvenns konar. Annars vegar veitir ríkið dagblöðum og landsmálablöðum fjárstyrk, sem mun á næsta ári nema rúmlega hálfri þriðju milljón nýkróna samkvæmt fjárlagafrumvarpinu, sem nú er fyrir þingi.

Hlutur dagblaðanna af þessu fé er greiðsla fyrir eintök, sem ríkið kaupir í einu lagi og lætur senda ýmsum stofnunum. Oftast hafa þetta verið um 200 eintök af hverju blaði, þar á meðal Morgunblaðinu, sem aðeins þiggur þennan hluta.

Hins vegar kaupir ríkið 250 eintök af hverju dagblaði án þess að fá þau. Nemur sú upphæð rúmri milljón nýkróna á núverandi verðlagi. Þennan hluta þiggja dagblöðin önnur en Morgunblaðið og Dagblaðið & Vísir.

“Við höfum ekki lesendur fyrir þessi blöð, svo að við erum ekkert að fá þau til að stafla þeim upp. Við lítum á þetta sem styrk til blaðanna.” Þetta sagði embættismaður fjármálaráðuneytisins í blaðaviðtali í fyrra.

Samtals er gert ráð fyrir, að ríkið verji á næsta ári meira en 3,5 milljónum nýkróna til að styrkja blöð. Þessi upphæð hefur farið ört hækkandi, hraðar en verðbólgan, enda eiga flokkspólitísku blöðin góða að á þingi.

Fyrrnefndi styrkurinn á samkvæmt fjárlagafrumvarpinu að hækka um 50% að þessu sinni, meðan frumvarpið í heild hækkar um 33%. Þar á ofan er venja, að þingmenn hækki styrkinn í skjóli nætur við afgreiðslu fjárlaganna.

Blaðastyrkirnir miða að verndun flokkspólitískra blaða gegn vaxandi ásókn frjálsra og óháðra blaða. Þeir stefna að viðhaldi úreltra stofnana á því sviði fjölmiðlunar, þar sem samkeppni hefur annars verið leyfð.

Jafnframt stefna styrkirnir að lausara sambandi lesenda og dagblaða. Þeir láta lesendur skipta minna máli en áður og velviljaða stjórnmálamenn meira máli. Hástigið er Alþýðublaðið, sem er ekki lesið og lifir á ríkinu.

Sem dæmi um hættuna, sem þessu fylgir, má nefna mál, sem ríkisvaldið höfðaði fyrir nokkrum árum gegn þeim tveimur blöðum, sem nú hafa sameinazt í Dagblaði & Vísi, er þau hækkuðu verð sitt umfram önnur blöð.

Dagblöðin tvö héldu því fram, að opinber fyrirmæli um verð blaða væri skerðing prentfrelsis. Blöðin gætu ekki verið óháð og frjáls nema þau væru seld á verðlagi, sem væri í samræmi við verðbólgu hvers tíma.

Þáverandi ráðherra verðlagsmála sagði, að sjálfstæði blaða á þessu sviði spillti fyrir möguleikum stjórnvalda á að hafa stjórn á verðlagsmálum. Hann gaf til kynna, að í staðinn kæmi til greina að auka blaðastyrkinn.

Verð dagblaða er inni í vísítölunni, en blaðastyrkirnir ekki. Það var, er og verður því freistandi fyrir vísitölufalsara í ráðherrastólum að millifæra með þessum hætti, þótt það spilli tjáningarfrelsi í landinu.

Eitt hlutverk Dagblaðsins & Vísis er einmitt að reyna að vernda fólk fyrir samábyrgð flokkanna af þessu tagi og öðru. Því hlutverki verður ekki hægt að gegna á framfæri hins opinbera. Við höfnum því ríkispeningunum.

Jónas Kristjánsson

DV