Biðlund í velgengni.

Greinar

Einna ljósasti þáttur velgengni þessa sameinaða dagblaðs er auglýsingaflóðið, sem hefur sett efnisskipan þess úr skorðum fyrstu dagana og gerir enn. Ekki má búast við, að þetta breytist að ráði á þeim tæpu þremur vikum, sem lifa til jóla.

Fyrirfram hafði verið gert ráð fyrir, að auglýsendur í hvoru dagblaði um sig vildu auglýsa í hinu sameinaða blaði. Hins vegar kom á óvart, hversu fljótir nýir auglýsendur voru að taka við sér og hinir fyrri að auka við sig.

Á móti hefur blaðið takmarkaða möguleika á stækkun að sinni. Valda því bæði hinar gífurlegu annir starfsfólks við undirbúning prentunar og svo ýmsir tæknilegir þröskuldar á borð við stærð og afkastagetu vélakosts.

Til að byrja með getum við aðeins haft tvöfalt blað á laugardögum. Við gerum ráð fyrir að geta komið út 48 síðna eins litar blaði á mánudögum og allt að 40 síðna tveggja lita blöðum aðra daga vikunnar. Þetta er of lítið.

Sem betur fer er efnismagn hins sameinaða dagblaðs þó mun meira en var fyrir í hvoru blaði um sig, þrátt fyrir auglýsingaflóðið og stækkunartakmörkin, sem hér hefur verið lýst. Lesendur fá mun meira lesefni en áður.

Þessi aukning er í bili ekki eins mikil og við hefðum kosið. Hún verður meiri, þegar auglýsingaflóðinu linnir að tæplega þrem vikum liðnum. Þá loksins fær sameinaða dagblaðið sinn eiginlega og ráðgerða heildarsvip.

Jafnframt höfum við verið að gera tilraunir með skipan efnis í blaðið og verðum að halda því áfram næstu daga. Fyrir bragðið hafa sumir efnisþættir verið á ferðinni um blaðið og jafnvel út úr því og inn í það.

Af þessu leiðir, að lesendur hafa ekki að öllu leyti getað gengið að ákveðnum efnisþáttum á föstum stöðum í blaðinu. Þetta stendur þó til bóta, því að tímabili tilraunanna fer senn að ljúka og blaðið að festast í formi.

Í millibilsástandinu, sem hér hefur verið lýst, biðjum við lesendur um biðlund og þolinmæði. Sameinað dagblað verður ekki endanlega fullskapað á einum degi, allra sízt á tíma hins fjöruga viðskiptalífs aðventunnar.

Áskrifendur fyrirrennaranna hafa haldið tryggð við hið sameinaða dagblað. Þar að auki hafa margir nýir bætzt við, sem áður voru að hvorugu blaðinu áskrifendur, en keyptu kannski í lausasölu annað hvort eða bæði.

Lausasalan hefur einnig verið meiri en spáð var fyrirfram. Við vitum ekki enn, hvort því ræður eðlileg forvitni um nýjungar. Við vitum ekki, hvort þetta fólk bætist í hóp hinna varanlegu lesenda, en vonum það auðvitað.

Ef hinir gömlu og nýju kaupendur sýna hinu sameinaða dagblaði biðlund á tíma auglýsingaflóðs, tækniþröskulda og tilrauna, erum við sannfærð um, að innan skamms nær blaðið því efnismagni og efnisvali, sem þeir eiga skilið.

Við stefnum að því að gefa út blað, sem felur í sér alla efnisþætti fyrirrennaranna. Við ætlum aðeins að fella niður tvíverknaðinn, sem áður var. Þetta hefur okkur tekizt að mestu leyti, en ekki öllu.

Þar á ofan stefnum við að nýjum efnisþáttum og auknum. Við teljum okkur vel í stakk búna til þess, um leið og rýmið fer að aukast á síðum blaðsins. Eins og lesendur bíðum við þess með eftirvæntingu. Og teljum dagana til jóla.

Jónas Kristjánsson

DV