Daufgerð stjórnarandstaða.

Greinar

Sjaldan hefur farið eins lítið fyrir stjórnarandstöðu og þeirri, sem verið hefur utan valda síðustu tvö árin tæp. Tilraunir hennar til að láta að sér kveða hafa að verulegu leyti farið út um þúfur. Hún er nánast gleymd og grafin.

Helzt er hægt að finna hana á síðum Morgunblaðsins. Nánast daglega í þessi tæpu tvö ár hefur baksíða þess verið lögð undir heimsendafyrirsagnir af íslenzkum efnahagsmálum. Ef við tryðum þeim, værum við öll flúin af landi brott.

Nú vill svo til, að betra er að lifa hér en í flestum nálægum löndum. Kaupið er að vísu lægra, en á móti kemur, að atvinna er nóg. Í öðrum löndum er svo komið, að atvinna er sjaldfenginn lúxus þeim, sem koma úr skólum.

Þetta er svo sem ekki ríkisstjórninni að þakka fremur en öðrum slíkum, sem hafa verið við völd á undanförnum áratugum. En þessari má þó sennilega þakka, að sparifjáreigendur geta nú ávaxtað fé sitt í fyrsta sinn í áratugi.

Einna sárast svíður stjórnarandstöðunni að geta ekki sigað launþegasamtökunum á ríkisstjórnina. Þetta ástand hefur verið tilefni síendurtekinna frýjunarorða, meðal annars í formi baksíðufrétta í Morgunblaðinu.

Alþýðusambandið hefur af langri reynslu áttað sig á, að prósentuhækkun launa segir tiltölulega lítið um kaupmáttinn. Önnur atriði ráða þar meiru, annars vegar efnahagsástandið og hins vegar aðgerðir stjórnvalda.

Í sjálfu sér skiptir litlu, hvort laun hækka um 3%, 30% eða 300%. Verðbólgan kemur þessu öllu út í eitt. Meira máli skiptir, að atvinna sé næg og að gerðir stjórnvalda skerði ekki hlut launamanna af svokallaðri þjóðarköku.

Ef launþegasamtökin treysta þessari ríkisstjórn örlítið betur en sumum fyrri, er það náttúrlega böl fyrir stjórnarandstöðuna, sem bölsótast meira á síðum Morgunblaðsins en í sölum hins háa alþingis. Og þetta böl er þungt nú um stundir.

Úr öllu þessu kann að rætast, ef ríkisstjórninni tekst ekki að halda verðbólgunni niðri við 40%, hafandi tekið við henni í 60%. Fari bólgan nú upp að nýju, getur stjórnarandstaðan tekið gleði sína eftir tæpra tveggja ára táradal.

Lukkan hefur leikið við sjónhverfingameistara hæstvirtrar ríkisstjórnar. Sumir telja, að sjónhverfingarnar geti gengið endalaust, að böllin muni kontinúerast út í hið óendanlega. Þau hafa að minnsta kosti gert það hingað til.

Þeir eru hins vegar sárafáir, sem telja, að stjórnarandstaðan hafi eitthvað markvert um þessi mál að segja. Menn lesa heimsendafyrirsagnir Morgunblaðsins sem eins konar hitamæli á skapvonzku og ergelsi stjórnarandstöðunnar.

Þetta er ákaflega hastarlegt, því að virk og öflug stjórnarandstaða er hornsteinn lýðræðis og efnahagslegra framfara. Ef stjórnarandstaðan leggur upp laupana, svo sem hér hefur gerzt, er lýðræðið ekki lengur í fullu gildi.

Fyrst þarf stjórnarandstaðan að koma Morgunblaðinu upp á jörðina, svo að þjóðmáladeilur verði trúverðugar á nýjan leik. Síðan þarf hún að koma sér upp stjórnmálamönnum, sem fólkið í landinu nennir að hlusta á.

Við búum við velsæld, sem er byggð á sandi. Og það er dapurlegt að búa við stjórnarandstöðu, sem er gersamlega fyrirmunað að sýna fólki fram á, að svo sé. Þetta er eitt stærsta vandamál þjóðarinnar um þessar mundir.

Jónas Kristjánsson

DV