Kveðja til Pólverja.

Greinar

Íslendingar senda Pólverjum innilegustu samúðarkveðjur í síðustu þrengingum þeirra. Við sendum þeim óskir um, að leiðtogar þeirra verði látnir lausir, – að linni ofbeldi kommúnistaflokksins að baki hersins, – að friður ríki að nýju.

Kommúnistaflokkurinn pólski gafst upp á landsstjórninni í gær og fékk herinn til að taka völdin í landinu. Flestir helztu leiðtogar verkalýðsins voru handteknir. Birtir voru tugir tilskipana í skjóli herlaga.

Herinn í Póllandi er ekki eins mikið fyrirlitinn og flokkurinn. Það á sínar sögulegu forsendur, auk þess sem herinn hefur að mestu leyti verið laus við hina gegndarlausu spillingu, sem einkennt hefur flokkinn um margra ára skeið.

Sú var skýringin, er hershöfðinginn Jaruzelski var fenginn til að taka við stjórnartaumunum í landinu. Og sú er enn skýringin nú, þegar hann stjórnar með tilskipunum í nafni hersins, en flokkurinn felur sig að tjaldabaki.

Í morgun var of snemmt að átta sig á viðbrögðum Pólverja. Nokkrir verkalýðsleiðtogar í Gdansk höfðu komizt hjá handtöku. Þeir höfðu hvatt þjóðina til að leggja niður vinnu, unz hinir handteknu hefðu verið látnir lausir og herlögum aflétt.

Stjórnvöld hleyptu í útvarp áskorun Glemp erkibiskups til fólks um að sýna stillingu og grípa ekki til ofbeldis, þótt traðkað hefði verið á mannréttindum, saklausir menn verið handteknir og mannfyrirlitning verið sýnd.

Kaþólska kirkjan hefur mikil áhrif í landinu og yfirmaður hennar, Glemp erkibiskup, hefur reynt að miðla málum milli stjórnvalda og verkalýðshreyfingar. Sú viðleitni virðist hafa beðið skipbrot í herlögum gærdagsins.

“Ég mun biðja ykkur, þótt ég verði að biðja á hnjánum: Hefjið ekki styrjöld milli Pólverja. Fórnið ekki lífi ykkar, bræður og verkamenn, því að verð hvers mannslífs verður lágt,” sagði Glemp erkibiskup í gær.

Í upphafi aðgerðanna reyndi 20 manna herlagastjórn Jaruzelskis að fá Lech Walesa verkalýðsforingja til að hvetja verkamenn til að láta af verkfallshugmyndum, en hann fékkst ekki til þess. Enginn bilbugur er á öðrum leiðtogum.

Líklegt virðist, að meirihluti þjóðarinnar muni fylgja áskorunum um verkfall og jafnframt fylgja áskorunum um að sýna hvergi valdbeitingu. Það mun því reynast kommúnistaflokknum erfitt að láta Jaruzelski berja þjóðina til hlýðni.

Deila hinna frjálsu verkalýðssamtaka við kommúnistaflokkinn og ríkisstjórnina hefur nú staðið í tæplega hálft annað ár. Oft hefur verið ófriðlegt á þessu tímabili, en það er fyrst nú, að ráðamenn flokksins hafa misst stjórn á sér.

Herlögin og fangelsanirnar eru sögð miða að því að hindra borgarastyrjöld og sovézka hernaðaríhlutun. Hið síðara kann rétt að vera, því að skuggi Kremlverja hefur hvílt eins og mara á Póllandi frá valdatöku kommúnista.

Í dag sendum við kveðjur stoltri þjóð, sem bíður þögul í skauti þess, sem verða vill. Hún mun líklega ekki sýna hernum mótþróa, en hún mun líklega ekki heldur vinna fyrir hann eða flokkinn að baki hans, – ekki hlýða, en ekki heldur beita valdi.

Héðan úr fjarlægu öryggi Íslands berast hinum hrjáðu Pólverjum kannski gagnslausar, en alténd heitar og innilegar kveðjur með óskum um, að mál þeirra muni snúast til betri vegar, þrátt fyrir ofbeldi hers og flokks.

Jónas Kristjánsson

DV