Rúm fyrir nýtt blað.

Greinar

Reynslan sýnir, að unnt er að stofna dagblöð hér á landi og sameina þau, hvort tveggja með ágætum árangri. Þessi staðreynd hefur síazt inn í hugi manna og leitt til athyglisverðra hugmynda um frekara framtak á því sviði.

Einkum eru það vinstri menn, sem harma veika og klofna blaðaútgáfu sína. Á hægra kanti sjá þeir fyrir sér trausts og vel rekið Morgunblaðið á gömlum merg. Hví skyldu vinstri menn ekki reyna að sameinast um eitthvert mótvægi?

Við núverandi aðstæður má reikna með, að hér á landi sé rúm fyrir þrjú vel rekin dagblöð, sem standi undir sér. Fyrir eru tvö, hægri sinnað Morgunblaðið og óháð og frjálst Dagblaðið & Vísir. En þriðja dagblaðið vantar.

Í stað þess er kraðak þriggja lítilla blaða, Alþýðublaðsins, Tímans og Þjóðviljans. Öll eru þau vanmáttug málgögn svonefndra vinstri flokka. Fjárhagslega hafa þau yfirleitt verið sligandi byrði á herðum trúrra flokksmanna.

Rökréttust er hugmynd Árna Stefánssonar, sem birtist í Þjóðviljanum, um sameiningu blaðanna þriggja í eitt öflugt og almennt vinstra dagblað, er byði bæði upp á almennt fréttaefni og sérstakar síður fyrir flokkana.

Sameinaður lesendahópur litlu blaðanna þriggja er sennilega grundvöllur fyrir um eða rúmlega 20 þúsund eintaka alvörublað. Og hingað til hefur slíkt upplag verið talið nægja til bærilegrar afkomu og frekari útbreiðslu.

Með sæmilegum lesendafjölda fylgja líka stórauknar auglýsingar. Þær kalla aftur á móti á fleiri lesendur og búa til fjármagn, sem leiðir til aukins og bætts efnis, er skapar svo grundvöll fyrir enn stærri lesendahóp.

Þetta er eins og spírall, sem flytur menn upp á við. Hann kemur í stað núverandi vítahrings litlu blaðanna, þar sem allt rennur í einn farveg, fjármagnsskortur, lélegt efni, dvínandi lesendahópur og lítill áhugi auglýsenda.

En rökréttasta hugmyndin er ekki endilega sú, sem er næst raunveruleikanum. Vinstra samstarf í viðskiptum hefur gengið hörmulega í Blaðaprenti, þrátt fyrir myndarlega byrjun. Þar hafa rýtingarnir óspart verið fægðir.

Sennilega vantar víðsýni í hóp þeirra manna, sem helzt gætu sameinað vinstri blöðin í eitt almennilegt blað. Þröngsýnir menn geta ekki gripið hið mikla, af því að þeir hafa krampakennt tak á hinu litla og lélega.

Hið raunverulega frumkvæði er nú í höndum Alþýðuflokksmanna, sem undirbúa útkomu Síðdegisblaðsins upp úr áramótum. Ráðgert er, að Alþýðublaðið renni inn í hið nýja blað sem hið flokkspólitíska akkeri þess.

Aðstandendurnir voru nógu hugdjarfir að bjóða Tímanum og Þjóðviljanum aðild. Þar með gafst rakið tækifæri fyrir vinstri menn að þora að sameinast um eitt öflugt blað í stað þriggja aumra. En gæsin hefur ekki verið gripin.

Alþýðublaðið eitt er auðvitað ákaflega ótraustur grunnur nýs dagblaðs, því að lesendahópurinn er næstum ekki neinn. Og Alþýðuflokkurinn má mikið puða til að ná öllum þorra vinstri sinnaðra lesenda undir hatt Síðdegisblaðsins.

Þeim mun meiri ástæða er til að óska aðstandendum hins nýja blaðs velfarnaðar í undirbúningsstarfi þeirra. Markmiðið er fjarlægara en það þyrfti að vera. En það er til. Fyrir þriðja blaðið er rúm á íslenzkum markaði.

Jónas Kristjánsson.

DV