Verðbólgu á að viðurkenna.

Greinar

Nokkur er kaldhæðni hagfræðinnar, þegar okkur er sagt, að 1% hækkun fiskverðs leiði til 1% verðhækkunar erlends gjaldeyris, sem aftur á móti hafi í för með sér 1% hækkun launa í landinu, er endurspeglist í nýrri 1% hækkun fiskverðs og …

Verst er, að enginn veit, hvar þessi vítahringur byrjaði, ekki frekar en hægt er að upplýsa, hvort hafi verið til á undan, hænan eða eggið. Við heyrum bara hverju sinni, að hækkun sé nauðsynleg vegna þess, sem á undan hafi gerzt.

Stjórnvöld reyna yfirleitt að grípa hentug tækifæri til afskipta af vítahringnum. Þegar bezt lætur, tekst þeim að skera ofurlítið af bólgunni á öllum sviðum, svo að enginn geti sagt, að meira sé af sér tekið en öllum hinum.

Þetta var gert með nokkurri lagni fyrir ári, þegar efnahagskrukki var hagað á þann hátt, að launþegar misstu nokkuð, atvinnuvegir dálítið og hið opinbera svolítið líka. Með þessu komst bólgan niður í “aðeins” 40% árið 1981.

Nú er hraðinn aftur að aukast. Talað er um, að á nýja árinu verði bólgan 55% og jafnvel enn meiri, nema eitthvað nýtt finnist til að draga úr bratta spíralsins. Áhrifamáttur gömlu lyfjanna fer minnkandi frá ári til árs.

Landsfeður og hagfræðingar þeirra brjóta heilann um ný tilþrif í millifærslum og niðurfærslum eða þá bara hreinum vísitölufölsunum, ef ekki eru betri ráð tiltæk. Slík kraftaverk eru aðall íslenzkrar efnahagsstjórnar.

Lækningar þessar eiga flestar það sameiginlegt að vera hættulegri en sjálf bólgan, sem verið er að glíma við. Algengast er, að þær skekki einhverjar grundvallarforsendur í efnahagslífinu og ýti því út á rangar brautir.

Eitt alvarlegasta dæmið um krukk af þessu tagi eru þrálátar hugmyndir stjórnvalda um að hagræða taprekstri í fiskvinnslu með því að færa milli deilda verðjöfnunarsjóðs fiskiðnaðarins og rjúfa þannig hagkvæmnissamhengið.

Annað dæmi felst í jafnþrálátum hugmyndum þeirra um að létta greiðslubyrði atvinnulífsins með því að stöðva frekari þróun í átt til verðtryggingar fjárskuldbindinga og stíga jafnvel nokkur skref til baka.

Við höfum séð dæmi þess, að slík óskhyggja hafi náð fram að ganga. Greinar fiskiðnaðarins greiddu í fyrra misjöfn útflutningsgjöld. Og nú síðast hefur Seðlabankinn tekið upp aukna meðgjöf í afurðalánum útflutningsatvinnuvega.

Aldrei hefur heyrzt orð til efnislegrar varnar gegn þeirri gagnrýni, að kraftaverk af þessu tagi brjóti í bága við grundvallarreglur heilbrigðs ramma um atvinnulífið. Dýpri skilningur er bara ekki til umræðu í stjórnkerfinu.

Í stórum dráttum hefur þó ýmislegt lærzt í hörðum skóla verðbólgunnar. Vinnufriður hefur árum saman haldizt að mestu á þann hátt, að kaupmáttur launa hefur verið verndaður með því að vísitölubinda launin.

Upp á síðkastið hefur líka verið reynt að efla innlendan sparnað og þar með þjóðarauð með því að vísitölutryggja fjárskuldbindingar. Á fáum árum höfum við komizt rúmlega hálfa leið, – með því að viðurkenna þannig tilvist verðbólgu.

Þetta kemur þó ekki útflutningsatvinnuvegunum að gagni, því að gengi erlendra gjaldmiðla er ekki vísitölutryggt. Þar hefur hnífurinn oft staðið í kúnni og gerir einmitt á þessum síðustu dögum. Kannski vantar okkur einmitt gengisvísitölu, – nýja á mánaðarfresti.

Jónas Kristjánsson.

DV