Kirkjan dreifi, ekki herinn.

Greinar

Þeir, sem standa fyrir söfnun handa Pólverjum, verða að leggja harðar að sér við að tryggja, að réttir aðilar annist dreifingu varningsins í Póllandi, það er að segja kaþólska kirkjan, en ekki herforingjastjórnin.

Þótt ástandið í Póllandi sé mjög slæmt, hafa stuðningsmenn Samstöðu, hinna frjálsu verkalýðssamtaka, reynt að koma því á framfæri í vesturveg, að hjálp verði ekki veitt á þann hátt, að hún auðveldi framgang herlaga í landinu.

Menn Samstöðu hafa líka sagt, að Pólverjar séu reiðubúnir að færa efnahagslegar fórnir sem eina af óhjákvæmilegum afleiðingum efnahagslegra aðgerða Vesturlanda gegn pólsku herforingjastjórninni og Kremlverjum að baki hennar.

Söfnunarmenn hafa tilhneigingu til að fullyrða, að þeir hafi full tök á dreifingu. Þeir gerðu það í söfnuninni til Nicaragua eftir jarðskjálftana miklu, þótt síðar kæmi í ljós, að Somoza harðstjóri hafði stungið nær öllu í eigin vasa.

Í söfnunum til þriðja heimsins þykir í rauninni nokkuð gott, ef meira en helmingur gjafanna kemst til réttra aðila. Í mörgum tilvikum lendir meirihlutinn í höndum landsherra, sem safna bankareikningum í Sviss.

Pólland er ekki í þriðja heiminum. En herforingjastjórnin þar er jafnforhert og aðrar slíkar í heiminum. Hún er líkleg til að nota vestrænar gjafir í sína eigin þágu, svo sem til að halda uppi hernum í landinu.

Þetta vita Pólverjar sjálfir. Þegar herlög voru sett, sáu þeir, að verzlanir fylltust skyndilega af varningi, sem ekki hafði sézt vikum og mánuðum saman. Þessar vörur hafði stjórnin beinlínis falið fyrir almenningi.

Þetta staðfesti þá trú Pólverja, að kommúnistaflokkurinn hefði verið að reyna að svelta þjóðina til hlýðni og síðan losað um hluta birgðanna til að mýkja hug þjóðarinnar í garð herforingjastjórnar og herlaga.

Neyðin í Póllandi er kommúnistaflokknum og Kremlverjum að kenna. Hún byggist á óstjórn um áratugi. Eftir setningu herlaga er eðlilegt, að Sovétríkin beri kostnaðinn, því að þau settu pólsku stjórninni úrslitakostina.

Skynsamlegt er að svara eins og Genscher, utanríkisráðherra Vestur-Þýzkalands, hefur gert. Hann hefur boðið mikla aðstoð við Pólverja, þegar herlögum hefur verið aflétt, pólitískir fangar verið leystir og Samstaða endurreist.

Einnig er skynsamlegt, að Vesturlönd neiti öllum óskum herforingjastjórnarinnar í Póllandi um ný vestræn lán og þægilegri greiðslukjör eldri lána, nema uppfyllt séu sömu skilyrði og fylgja boði Genschers um aðstoð.

Hins vegar eru ákvarðanir um annars konar efnahagslegar refsiaðgerðir gegn Sovétríkjunum ekki trúverðugar, sízt af hálfu Reagans Bandaríkjaforseta, sem sjálfur tók á ný upp gífurlegar kornsölur til Sovétríkjanna hálfu öðru ári eftir innrás þeirra í Afganistan.

Íslendinga skiptir nú máli að vita, að vestrænum hjálparstofnunum hefur í nokkrum tilvikum tekizt að fá Póllandsaðstoð sinni dreift á vegum kaþólsku kirkjunnar. Engin ástæða er fyrir norræn hjálparsamtök að sætta sig við minna.

Eftir lömun Samstöðu er kaþólska kirkjan í Póllandi eina frelsisljósið í landinu. Aukið athafnafrelsi hennar í dreifingu hjálpargagna frá Vesturlöndum er um leið til þess fallið að varðveita frelsisljósið.

Jónas Kristjánsson

DV