Þefnæmið að daprast?

Greinar

Svo virðist sem hið áður mikla þefnæmi ríkisstjórnarinnar sé farið að daprast. Fiskverð fæddist á afturfótunum um helgina. Ráðherrar eru farnir að deila opinberlega, fyrst Svavar og Tómas, nú Ragnar og Steingrímur.

Sennilega hefur enginn verið að ljúga að neinum, þegar sjómannasamningar og fiskverð fæddust andvana á fimmtudaginn, í fyrri atrennu. Menn hafa bara misskilið hver annan. En slíkt er ekki heldur neitt dæmi um stjórnvizku.

Að moldviðri gengnu niður má þó sjá, að niðurstaða sjómannasamninga og fiskverðs er harla góð, svo langt sem hún nær. Hver hefði til dæmis trúað því fyrirfram, að úr þessum hnút yrði fiskverð endanlega ákveðið með atkvæðum allra málsaðila?

Munur fimmtudags og laugardags felst í, að hækkun fiskverðs, sem átti að verða 13,5%, verður 17,9% og að lækkun olíugjalds framhjá hlutaskiptum, sem átti að verða 2%, verður 0,5%. Má telja þetta tiltölulega ódýrt leystan hnút.

Á dögunum tveimur bættu sjómenn stöðu sína um 2,5% og útgerðin sína um 5,5%. Sú skipting er harla sanngjörn, því að olía er og verður margfalt stærri kostnaðarliður en var, þegar hlutaskipti voru á sínum tíma ákveðin.

Hækkun fiskverðs er hagað þannig, að í raun fá togarar 15% hækkun og bátar 21%. Fyrir þessum mun eru ekki færð nein viðskiptaleg rök, heldur hin félagslegu, að bátasjómenn hafi það ekki eins gott og togarasjómenn, sem felldu svo samkomulagið.

Í framhjáhlaupi má geta þess, að munurinn gerir enn erfiðari en ella rekstur hinna mörgu nýju togara, sem sjávarútvegsráðherra hyggst af örlæti gefa landsbyggðinni. Er það skattgreiðendum lítið tilhlökkunarefni.

Á móti fiskverðshækkuninni hefur ríkisstjórnin lofað fiskvinnslunni gengislækkun, sem sennilega verður um 3%, til viðbótar þeim 12%, sem áður voru komin. Geta þá allir unað við sitt, við nokkru hærra verðbólgustig en ella.

Eftir stendur svo spurningin um, hvort ekki hafi verið gengið af of mikilli taugaveiklun að lausn þessa máls. Að mörgu leyti var ágætt að hafa flotann bundinn, því að það sparaði skrapdaga og netavertíð var ekki hafin.

Þeir dagar, sem töpuðust, munu ekki leiða til minna aflaverðmætis úr sjó á þessu ári. Og þeir munu gera sóknina ódýrari en ella hefði orðið. Hið sama má segja, ef stóru togararnir liggja í tvær eða þrjár vikur enn.

Þannig er nú komið fyrir ofskipulagi sjávarútvegs, að landlegur á borð við þessa eru í þágu þjóðarhags. Það stafar auðvitað aðallega af því, að sjávarútvegsráðherrar eru of örlátir við að fjármagna ný skip.

Helzti gallinn við stanzinn er, að fiskvinnslufólk fór af launum á atvinnuleysisbætur. Það kostar nokkuð af sameiginlegu fé landsmanna og sáir þeirri hugsun, að slíkar bætur geti verið lifibrauð.

Ríkisstjórnin er ekki búinn að bíta úr nálinni, þótt hún hafi komizt lítt sár úr þessum háska. Fiskverðið nýja er ekki alveg komið í höfn og gildir aðeins til loka febrúar. Munu þá þrýstihóparnir geggjast á nýjan leik.

Nærtækari vandi er þó efnahagsmálapakkinn, sem orðinn er að opinberri deilu milli ráðherra. Annaðhvort er siðameistarinn að missa tökin á strákunum sínum. Eða þá að menn eru farnir að tefla sig úr samstarfi inn í kosningar.

Jónas Kristjánsson.

DV