Lakari pakkar hafa sézt.

Greinar

Sumt er gott í efnahagspakka ríkisstjórnarinnar, en annað lakara, svona rétt eins og gengur með slíka pakka. Þeir minna á fallegu páskaeggin, sem reynast hafa misjafnlega gómsætt innihald, en eru þó áfram keypt.

Satt að segja hafa oft sézt lakari pakkar en þessi. Stundum hefur töluverður hluti reikningsins verið sendur skattgreiðendum. Nú á hins vegar að láta ríkið sjálft borga mest, með því að skera niður eigin rekstur þess.

Matið á pakka sem þessum fer auðvitað eftir þeim kröfum, er menn gera. Miðað við það, sem hægt væri að gera, er pakkinn lélegur eins og fyrri daginn. Hann er aðeins bráðabirgðalausn til tæplega hálfs árs.

Ef við hefðum samstæða ríkisstjórn, þar sem í senn væri starfað af dirfsku og einlægni, gæti þjóðin fengið betri og varanlegri pakka. En ekki er von á góðu, þegar samstarfsflokkarnir eru farnir að gjóta hornauga til kosninga.

Ef matið á pakkanum byggist hins vegar á samanburði við afrekaskrár fyrri ríkisstjórna og spá um afrek þeirra, sem síðar munu fylgja, má segja, að ríkisstjórnin hafi komizt nokkuð laglega fyrir horn, eins og stundum áður.

Nú verður vinnufriður í landinu fram í miðjan maí. Ekkert í pakkanum er til þess fallið að reita launamannafélögin til reiði. Þvert á móti gefur hann örlítið tóm og svigrúm til að þjarka dálítið um vísitöluna.

Efnislega er vit í hugmyndum um, að taka þurfi meira tillit til viðskiptakjara í útreikningi verðbóta. Sömuleiðis að taka þurfi orkukostnaðinn út, svo að fölsunarnáttúra stjórnvalda sé ekki hemill á innlendri orkuvinnslu.

Um langt skeið hafa rafveitur og hitaveitur, svo og orkuverin að baki þeirra, verið í fjársvelti til að halda vísitölunni niðri. Afleiðingin er í fyrstu umferð of mikil og dýr erlend lán og síðan hreinn orkuskortur.

Versti þáttur efnahagspakkans er aukning niðurgreiðslna landbúnaðarafurða um 375 milljónir króna. Þetta er elzta og algengasta aðferð stjórnvalda við fölsun vísitölunnar. Aðferðin er lífseig af því að hún er ódýrust.

Að vísu hafa niðurgreiðslur áður verið þyngri baggi. Þær komust upp í 11 % af vægi í framfærsluvísitölu árið 1978, eru nú 5% og verða 9% í kjölfar pakkans. En í rauninni eru allar þessar hlutfallstölur of háar.

Tollalækkanir pakkans eru skref í rétta átt, en ósköp stutt. Enn eru nauðsynlegar hreinlætisvörur í hátollaflokki. Og enn eru tölvurnar, sjálfur lykill framtíðarinnar, í hátollaflokki. Það er hrein landráðastefna.

Lækkun og jöfnun launaskatts er spor í rétta átt, því að atvinnuvegum á ekki að mismuna. Aukið svigrúm til verðlagningar með hliðsjón af hagkvæmum innkaupum er einnig spor í rétta átt, þótt framkvæmdin sé ekki enn ljós.

Til bölvunar verður hin svonefnda sveigjanlega bindiskylda í Seðlabankanum og þáttaka lánastofnana í opinberum fjárfestingaráætlunum. Slíkar aðgerðir taka fé af arðbærum markaði til notkunar í óarðbær gæluverkefni.

Bezti þáttur pakkans er hinn fyrirhugaði niðurskurður ríkisútgjalda um 120 milljónir króna. En ríkisstjórnin má um leið minnast þess, að vegurinn til vítis er varðaður góðum áformum, sem menn heykjast á að framkvæma.

Jónas Kristjánsson

DV