Loðvík 16. í Hvíta húsinu.

Greinar

Í dýrð Versala fyrir Bastilludaginn sagði María drottning, að fólk, sem heimtaði brauð, skyldi bara borða kökur. Og brosmildur kóngurinn, Loðvík sextándi, skildi ekkert í, að æstur múgurinn væri að trufla veizlufriðinn í Versölum.

Ef Versalabóndi nútímans er ekki beinlínis andvígur smælingjum, er hann að minnsta kosti laus við áhuga á högum þeirra. Á aðeins einu valdaári Reagans í Hvíta húsinu hefur stefna hans breikkað gjána milli vel og illa stæðra Bandaríkjamanna.

Fjárlagastjóri forsetans, David Stockman, rekur svonefnda lekastefnu, sem byggist á þeirri trú, að gjafir hins opinbera til ríka fólksins muni smám saman sáldrast niður til hinna fátæku, til dæmis í formi aukinnar atvinnu.

Í stóru og smáu hyglar stjórnin í Washington hinum auðugu, sker niður millifærslur til hinna félausu og leggur þær sumpart beinlínis niður. Stjórn Reagans er stjórn forréttindahópa í þágu forréttindahópa.

Aftur er orðið fínt að bera auðinn utan á sér, síðan nýja matarstellið kom í Hvíta húsið. 1,5 milljón króna gullúr voru auglýst í blöðunum fyrir jólin. Og þá var túnfiskur í kattamat í auknum mæli notaður sem fæða fólks, er átti aðeins 400 krónur fyrir dósinni.

Ríka fólkinu í Ford Lauderdale lízt illa á að sjá aðra næra sig upp úr öskutunnunum. Fram hefur komið tillaga um að úða eitri í tunnurnar. Greinarhöfundur í New York Times telur þetta hugarfar vera í samræmi við stjórnarfarið.

Enn verri hafa afleiðingar Reaganismans verið í Rómönsku Ameríku, þar sem stjórnvöld eru víða undir svipuðum handarjaðri Bandaríkjanna og stjórnvöld í Póllandi og öðrum löndum Austur-Evrópu eru undir handarjaðri Sovétríkjanna.

Ættir auðs og hermennsku í Rómönsku Ameríku hafa beinlínis tryllzt við valdatöku Reagans. Villimennskan í garð alþýðunnar hefur stóraukizt á einu ári, svo sem sanna dæmin frægu frá El Salvador og Guatemala.

Árið 1954 bylti bandaríska leyniþjónustan löglegum forseta Guatemala og kom þar á fót herforingjastjórn, sem Bandaríkin bera alla ábyrgð á. Þessi stjórn gekk í fyrra og gengur enn berserksgang við að útrýma hófsömum mönnum.

Millistéttirnar í landinu hafa ýmist verið drepnar eða hraktar úr landi, þannig að eftir eru auðmenn og öreigar. 2% þjóðarinnar njóta 25% teknanna meðan 50% hennar verða að sætta sig við 15%, samkvæmt upplýsingum bandaríska sendiráðsins.

Framferði herforingjastjórnarinnar í Póllandi er hreinn barnaleikur í samanburði við grimmdaræði hliðstæðra skjólstæðinga Bandaríkjanna í Rómönsku Ameríku. Þar fá starfsbræður Lech Walesa og Glemp erkibiskups ekki að halda lífi.

Kaldhæðnislegt er, að ofsóknirnar í Rómönsku Ameríku skuli í vaxandi mæli hafa beinzt gegn forvígismönnum verkalýðsfélaga og kaþólsku kirkjunnar. Og við skulum að minnsta kosti vona, að Jaruzelski fari ekki þangað í smiðju.

Ömurlegt er fyrir hinn vestræna heim að þurfa að sæta forustu hins brosmilda manns, sem kúgar fátæka heima fyrir og lætur sér líka ofsóknir gegn þeim í bakgarði Bandaríkjanna, Rómönsku Ameríku. En við getum þó talið dagana til kosninga.

Sá munur er alténd á brosmildum Loðvík 16. og Reagan, að mál hins fyrra leystist fyrst á höggstokknum, en Vesturlönd hafa komið sér upp frábærri aðferð til að skipta um óhæfa valdhafa. Brezhnev situr og situr, en Reagan fer eftir tæp þrjú ár.

Jónas Kristjánsson.

DV