Loftleiðir nútímans knésettar.

Greinar

Þúsundir áhrifamanna beggja vegna Atlantshafsins minnast enn Loftleiða með hlýju fyrir að hafa gert þeim kleift að ferðast, þegar þeir voru fátækir námsmenn. Íslendingar njóta þess enn að hafa átt forustu í lágum fargjöldum yfir hafið.

Á síðustu árum hefur Laker gegnt hlutverki Loftleiða, fengið fólk til að ferðast, sem gat það ekki áður. Þess vegna er harmur kveðinn að neytendum um allan heim, nú þegar stóru flugfélögin hafa komið honum á kné.

Við hrun Lakers voru fargjöldin yfir Atlantshafið komin niður í 1.600 krónur. Ef hann hefði ekki komið til skjalanna, væru fargjöldin að minnsta kosti þrisvar, ef ekki fjórum sinnum hærri. Og nú verða þau vafalaust hækkuð.

Laker gekk of langt. Ef hann hefði stöðvað sig við 2.000 króna fargjöld, væri flugfélagið hans ekki komið á höfuðið. Hann taldi sér ranglega trú um, að hann gæti hrist af sér hin stóru, feitu og illa reknu flugfélög.

Þau ákváðu hins vegar að drepa hann, hvað sem það kostaði. Þau buðu sömu fargjöld og hann, hver sem þau voru hverju sinni. Þau töpuðu miklu meiri peningum en hann, en höfðu fjárhagslegt bolmagn til að þola það lengur.

British Airways og ýmis önnur flugfélög gerðu þetta á kostnað skattgreiðenda. Önnur færðu miklar fórnir, svo sem Pan American, er seldi nær allar eignir sínar í landi. Og niðurstaðan varð, að Laker sprakk fyrstur á limminu.

Margt var skrítið í þessu stríði. Af því að Laker flaug frá London til Los Angeles, buðu stóru félögin farið á 3.000 krónur. Af því að hann flaug ekki hina skemmri leið til New Orleans, var gjaldið þangað 5.600 krónur.

Þetta minnir á, að í sumar buðu Flugleiðir um 2.200 króna fargjald til Amsterdam, meðan fargjaldið til Kaupmannahafnar var yfir 5.000 krónur. Að Íscargo knésettu verður gjaldið hækkað aftur, ef þetta flug. verður á annað borð á boðstólum.

Hrægammarnir eru eins, hvar sem er í heiminum. Hætt er við, að nú verði í alþjóðlegu flugi smám saman horfið til fyrri tíðar, er makráðir forstjórar sömdu um rosafargjöld til að halda uppi sérlega illa reknum fyrirtækjum.

Laker var maðurinn, sem var þeim hættulegur. Hann stefndi ekki aðeins í voða gróða stóru flugfélaganna af Norður-Atlantshafinu. Hann var einnig kominn á fremsta hlunn með að brjóta einokun þeirra á öðrum mikilvægum leiðum.

Hann var kominn með flugleyfi yfir Kyrrahafið frá Los Angeles til Hong Kong. Meira máli skipti þó, að hann var kominn með flugleyfi frá London til Berlínar og Zürich og hafði góðar vonir um leyfi til Rómar, Mílanó og Aþenu.

Krafturinn í Laker var slíkur, að hann var kominn með glæpafélagið IATA á höggstokkinn hjá Efnahagsbandalaginu með því að benda á, að verðákvarðanir þess brytu í bága við ákvæði Rómarsamningsins um verzlunarfrelsi.

Með meira úthaldi hefði Laker skotið í kaf rosafargjöldin, sem tíðkazt hafa á flugleiðum innan Evrópu og Íslendingar hafa meðal annarra áþreifanlega orðið varir við. Þessum fargjöldum verðum við nú að sæta enn um sinn.

Úlfarnir hafa náð Laker og myrkir tímar eru sennilega framundan í fluginu. Og sorglegt er að hugsa til, að gjaldþrot hans skuli stafa af, að hann fór með Atlantshafsfargjaldið niður í 1.600 krónur, þegar allir hefðu verið ánægðir með 2.000 krónur.

Jónas Kristjánsson.

DV