Kosið um fólk.

Greinar

Prófkjör og forkosningar vegna byggðakosninganna í maí eru nú háð um hverja helgi. Stjórnmálaflokkarnir taka allir meiri eða minni þátt í þessum persónulega kosningaundirbúningi, sem ætti að auka stjórnmálaáhuga kjósenda.

Sums staðar eru prófkjörin lokuð öðrum enn flokksbundnum, en annars staðar opin öllum. Sums staðar eru úrslitin bindandi að vissu marki, en annars staðar ekki. Enda er kjarkur ráðamanna misjafn eftir flokkum og stöðum.

Bezta og lýðræðislegasta einkenni kosningaundirbúningsins að þessu sinni eru forkosningar, sem eru að ryðja sér til rúms. Þær eru eins konar opið og sameiginlegt prófkjör flestra eða allra flokkanna á staðnum.

Þegar hafa forkosningar verið háðar á Akranesi og í Borgarnesi. Um þessa helgi verða þær í Keflavík og Njarðvík. Síðar verða slíkar kosningar í Kópavogi og Bolungarvík, á Siglufirði, Egilsstöðum og Ísafirði og ef til vill víðar á landinu.

Sameiginlegar forkosningar hafa meðal annars þann kost fram yfir opin prófkjör einstakra flokka, að kjósendur geta aðeins tekið þátt hjá einum flokki og þá væntanlega þeim flokki, sem þeir hyggjast styðja í kosningunum.

Þegar opin prófkjör flokka í byggðarlagi eru háð á ýmsum tímum, er hugsanlegt, að stuðningsmenn óviðkomandi flokka fjölmenni til leiks og ráði úrslitum. Um þessa hættu hefur verið fjölyrt, en sönnunargögn eru fátækleg.

Víða verða flokkar að sætta sig við slík prófkjör, af því að hinir flokkarnir vilja ekki taka þátt í forkosningum eða treysta sér aðeins til bundinna prófkjara eða þá, að samkomulag næst einfaldlega ekki.

Hvergi verður séð, að illa hafi farið í prófkjörum að þessu sinni frekar en fyrri daginn. Það eru bara sárindi yfir einstökum úrslitum, sem fá gjarna þægilega útrás í marklausum dylgjum um smölun á kjósendum annarra flokka.

Samt er þessi hætta til, sérstaklega hjá litlum flokkum, sem mega ekki við mikilli þátttöku stuðningsmanna stærri flokka. Þess vegna eru sameiginlegu forkosningarnar umtalsverð endurbót á annars ágætri hefð opinna prófkjara.

Minna er varið í bundnu prófkjörin, þar sem flokksmenn einir fá aðgang. Þau taka ekki tillit til, að margir kjósendur hafa óbeit á að vera varanlega eyrnamerktir einum flokki, þótt þeir vilji styðja hann að sinni.

Raunveruleg höfuðástæða bundinna prófkjara er hin sama og alls engra prófkjara. Ráðamenn á staðnum eru dauðhræddir við að missa völd. Þeir óttast, að upp rísi vinsælir og sjálfstæðir frambjóðendur, sem ekki sé hægt að hafa í vasanum.

Önnur ástæða fyrir andstöðu við opin prófkjör og forkosningar er, að þau gera nánast ókleift að snyrta framboðslista. Þannig geta t.d. karlmenn lent í öllum efstu sætum á viðkvæmum tímum kvenréttinda og kvennaframboða.

Þrátt fyrir þetta eru sameiginlegar forkosningar lýðræðisleg og mannleg nýjung í stjórnmálastarfinu. Jafnframt eru þær eðlilegur undanfari þess, að persónuvalið færist inn í sjálfar kosningarnar, – í formi óraðaðra framboðslista.

Ef kjósendur fá í hinum eiginlegu kosningum að raða sjálfir frambjóðendum þeirra lista, sem þeir kjósa, er komið í veg fyrir, að sárindi út af úrslitum forkosninga hafi annarleg áhrif á kosningaþátttöku einstakra flokksklíkna.

Jónas Kristjánsson.

DV