Lágt ris á lánardrottnum.

Greinar

Kominn er tími til, að stjórnvöld og bankar á Vesturlöndum lýsi yfir gjaldþroti Póllands. Annars verða lánin senn að gjöfum. Pólland skuldar yfir 250 milljarða króna í vestri og getur ekki einu sinni greitt vexti, hvað þá afborganir.

Vesturlönd eiga að velta fjármagnskostnaði herlaganna í Póllandi af sínum herðum og yfir á herðar Sovétríkjanna. Enda er þar í austri að leita ábyrgðarinnar á efnahagsástandinu og mannréttindaástandinu í Póllandi.

Sovétríkin hafa þegar neyðzt til að láta herforingjastjórnina í Póllandi hafa 19 milljarða króna til að fleyta sér frá degi til dags. Þetta er þung byrði, enda hafa Sovétríkin nú í fyrsta sinn í 37 ár beðið um greiðslufresti í vestri.

Samtals skulda Austur-Evrópuríkin 750 milljarða króna í vestri. Þótt tillit sé tekið til verðbólgunnar, er þetta langtum meira en öll Marshallaðstoðin við Vestur-Evrópu, sem kom að miklu gagni og fékkst endurgreidd.

Efnahagsaðstoðin við austrið hefur hins vegar ekki komið að neinu gagni, enda er sjálft hagkerfið þar alls staðar í ólestri. Þessari innspýtingu peninga á að hætta og láta Sovétríkin greiða kostnaðinn af harðstjórnarlúxusinum.

Ef Sovétríkin yrðu sjálf að kosta yfirráðin í Austur-Evrópu, mundu þau mjög lítið fé hafa aflögu til vígbúnaðar, þar á meðal hinnar hrikalegu fjölgunar kjarnorkuvopna. Um leið gætu Vesturlönd létt verulegum vígbúnaðarkostnaði af skattgreiðendum.

Bann við kornsölu til Sovétríkjanna og við gaskaupum af þeim mundi valda Kremlverjum miklum vandræðum, en ekki eins miklum og fjármagnsfrysting. Hún ein út af fyrir sig mundi skekkja hornsteina heimsvaldastefnu Sovétríkjanna.

Að vísu mundi gjaldþrot Póllands setja banka á Vesturlöndum út af sporinu. Það er óhjákvæmilegur herkostnaður, sem ríkisstjórnir viðkomandi landa geta mildað með því að kaupa kröfurnar á hendur Jaruzelski fyrir hálfvirði.

Því miður er hjartað deigt í vestrænum stjórnvöldum. Sú ríkisstjórn, sem mest froðufellir út af Póllandi, hin bandaríska, hefur í kyrrþey greitt bönkum landsins 700 milljón króna vanskil Póllands til að hindra yfirlýsingu um gjaldþrot þess!

Í rökréttu framhaldi má búast við, að ríkissjóður Bandaríkjanna borgi til viðbótar 4000 milljón króna vanskil Póllands á þessu eina ári. Orkan fer sem sé öll í að spara Sovétríkjunum kostnaðinn af pólsku herlögunum.

Sama sagan er alls staðar á Vesturlöndum. Taugaveikluð umhyggja ríkisstjórna fyrir bönkum, sem hafa rekið ranga lánastefnu veldur því, að þær þora ekki að lýsa í orði því gjaldþroti Póllands, sem þegar liggur á borði.

Allt tal um, að lán til Austur-Evrópu mundi milda stjórnarfar þar og gera stjórnvöld háðari Vesturlöndum, er að reynast bull og vitleysa. Það er lánveitandinn, en ekki skuldunauturinn, sem er veiki aðilinn.

Rétttrúarmenn austurs fyrirlíta Vesturlönd fyrir óttann við missi áhættufjárins í Póllandi og öðrum ríkjum Austur-Evrópu. Þeir telja þetta enn eina staðfestingu á kenningu Leníns um, að vestrið muni selja reipið í eigin hengingaról.

Stóru orðin í Póllandsþáttum sjónvarps eru einskis virði. Annað hvort eiga menn að þegja í máttleysi sínu eða reyna að snúa taflinu við með því að lýsa Pólland gjaldþrota og rukka Kremlverja um skuldirnar.

Jónas Kristjánsson.

DV