Er þetta “skásta” stjórnin?

Greinar

Tvíeggjað er að túlka niðurstöður skoðanakönnunar dagsins um fylgi ríkisstjórnarinnar. Í stjórnmálum hafa menn á öllum köntum lag á að túlka slíkar kannanir sér í hag. Og þessi síðasta gefur til þess gott tilefni.

Athyglisvert er, að ríkisstjórnin nýtur enn stuðnings mikils meirihluta þeirra, sem á henni hafa einhverja skoðun. Munurinn á 61% stuðningsmönnum og 39% andstæðingum er marktækur. Meirihlutinn verður ekki vefengdur.

Þessi 61% stuðningur er hinn sami og kom fram í könnun frá október 1980, fyrir sextán mánuðum. Á þessum langa tíma hefur ríkisstjórnin haldið stöðu sinni, þótt almenna reglan sé, að stuðningurinn dvíni, þegar líður á kjörtímabilið.

Ríkisstjórnin er hin fyrsta, síðan kannanir af þessu tagi hófust, sem sífellt reynist njóta stuðnings meirihluta þeirra, sem skoðun hafa. Bæði hægri stjórn Geirs Hallgrímssonar og vinstri stjórn Ólafs Jóhannessonar voru í minnihluta.

En þetta er aðeins önnur hlið málsins. Einnig er athyglisvert, að síðan í janúar í fyrra hefur stuðningurinn við ríkisstjórnina minnkað jafnt og þétt um meira en fjögur prósentustig á fjögurra mánaða fresti.

Með sama framhaldi á þessu ári verður ríkisstjórnin komin í minnihluta á þriggja ára afmæli sínu. Það er að minnsta kosti einu ári of snemmt, ef litið er til kjörtímabilsins í heild, auk þess sem margt getur gerzt á þeim tíma.

Einnig er nauðsynlegt, að menn taki eftir, að stuðningur við ríkisstjórnina er ekki sama og ánægja með hana. Það kemur greinilega fram í ummælum sumra hinna spurðu, að þeir styðja ríkisstjórnina með hangandi hendi.

Fjórðungur hinna spurðu gat ekki tekið afstöðu til ríkisstjórnarinnar. Að viðbættum þeim, sem ekki vildu svara, bendir könnunin til, að þriðjungur kjósenda sé óskrifað blað. Það er svipað hlutfall og verið hefur.

Þessi þriðjungur skiptir auðvitað máli, þegar gengið verður næst til þingkosninga. En það snýr fremur að fylgi stjórnmálaflokkanna. Þeim mun án efa takast misjafnlega að nýta sér stöðuna í lok kjörtímabilsins.

Það flækir svo stöðuna, að hluti stuðningsmanna ríkisstjórnarinnar segist jafnframt styðja Sjálfstæðisflokkinn að málum. Á þessu stigi veit enginn, hvernig þau atkvæði munu falla inn í stjórnarmynztur eftir kosningar.

Eftir stendur sú meginniðurstaða könnunarinnar, að ríkisstjórnin hefur nú étið upp stuðningskúfinn, sem hún aflaði sér með áramótaaðgerðunum fyrir rúmu ári. Hún hefur nú sömu stöðu og hún hafði fyrir þær aðgerðir.

Þetta bendir til, að ríkisstjórnin gæti, ef hún vildi, snúið gengissigi sínu í gengisris með því að koma sér saman um einbeittari og ákveðnari aðgerðir en þær, sem fólust í hinum nýlega þorrabakka hennar.

Almenningur sér margt jákvætt í þjóðfélaginu, svo sem fulla atvinnu. Hann hefur ekki eins miklar áhyggjur af verðbólgunni og stjórnmálamenn og hagfræðingar hafa, enda þekkir hann ekki annað ástand. Ríkisstjórnin nýtur þessara viðhorfa.

“Ég er fylgjandi þessari stjórn, vegna þess að ég held, að við fáum enga skárri”, sagði dæmigerður kjósandi í könnun blaðsins. Þetta lýsir viðhorfi, sem haldizt hefur stöðugt í tvö ríkisstjórnarár, hvað sem síðar verður.

Jónas Kristjánsson

DV