Þetta er Grænlandsár.

Greinar

Brottförin úr Efnahagsbandalaginu var samþykkt með svo naumum meirihluta í þjóðaratkvæðagreiðslunni í Grænlandi, að ekki er víst, hvort af henni verður. Það fer eftir úrslitum þingkosninganna á næsta ári.

Stjórnarflokkur vinstri manna í Grænlandi hefur stutt úrsögnina, en stjórnarandstaða hægri manna verið á móti. Ef skipti verða á meirihluta í kosningunum, má búast við, að fráhvarfið verði afturkallað.

Auðvelt er að skilja, að mörgum Grænlendingum sé illa við Efnahagsbandalagið. Það hefur ráðskazt með fiskimið þeirra og jafnvel verzlað með þau. Grænlendingar verða að fara til Bruxelles til að semja um að fá að veiða á eigin miðum.

Þá hafa Danir samið um aukin fríðindi fyrir sínar landbúnaðarafurðir í Efnahagsbandalaginu í skiptum fyrir veiðikvóta á grænlenzkum fiskimiðum. Eins og hvert annað nýlenduveldi hafa þeir þannig misnotað grænlenzkar auðlindir.

Á ýmsan hátt hafa Danir komið fram sem herraþjóð í Grænlandi. Aðeins fá ár eru síðan heimamenn fengu sömu laun fyrir sömu vinnu. Og flestum beztu störfunum gegna Danir, enda hefur lítil áherzla verið lögð á menntun Grænlendinga.

Svo er nú komið þar í landi, að Íslendingar á ferð voru ávarpaðir á lélegri ensku af heimamönnum, af því að þeir voru taldir danskir. Þá fyrst er hið sanna þjóðerni kom í ljós, fengust Grænlendingar til að mæla á sinni góðu dönsku.

Allt segir þetta sína sögu um nýlendu, sem er að reyna að brjótast undan herrum sínum í Kaupmannahöfn og Bruxelles. Grænlendingar eru að magna þjóðernisvitund sína og vilja verða húsbændur í eigin landi.

Ekki má skilja þetta svo, að áhrif Dana á Grænlandi hafi eingöngu verið neikvæð. Danska ríkið veitir gífurlegu fé til uppbyggingar á Grænlandi og Efnahagsbandalagið leggur einnig töluvert af mörkum.

Ef litið er á tölurnar, má halda fram, að Grænland geti ekki komizt af án Danmerkur og Efnahagsbandalagsins. Á þetta var rækilega bent í baráttunni fyrir þjóðaratkvæðagreiðsluna, sennilega með töluverðum árangri.

En einnig má líta á þennan stuðning sem gjald fyrir misnotkun fiskimiða Grænlendinga. Hugsanlegt er, að Grænland gæti haft sömu tekjur af því að leigja aðgang að þeim afla, sem Efnahagsbandalagið tekur nú endurgjaldslaust.

Niðurstaða þjóðaratkvæðagreiðslunnar var ekki svo eindregin, að ljóst sé, hvort gjáin breikki milli Grænlands og meginlands Evrópu. En ástandið er alténd þannig, að Íslendingum ber skylda til að koma til skjalanna.

Við þurfum að margfalda nýstofnaðan Grænlandssjóð til að efla samskipti þjóðanna á sem fjölbreyttastan hátt og ekki sízt til að styðja Grænlendinga til náms á Íslandi. Menntun er einmitt það, sem þeim kemur bezt í nútímanum.

Íslendingar eru ekki grunaðir um gæsku á Grænlandi. Þess vegna er ekki hætta á, að misskilin verði velviljuð aðstoð af okkar hálfu. Og við getum orðið að miklu gagni, ekki sízt vegna reynslu okkar í fiskveiðum.

Í sumar ætla Grænlendingar að minnast landnáms Eiríks rauða. Þeir ætla meira að segja að safna með almennum samskotum í minnismerki um hann í Brattahlíð. Við eigum að nota þetta afmælisár til að snúa okkur í alvöru að Grænlandi.

Jónas Kristjánsson

DV