Endurnýjaði kynni mín við Humarhúsið í hádeginu eftir árs hlé. Ekki man ég, hvað olli vinslitum á sínum tíma. Oft þarf ekki mikið til, að viðskiptamenn veitingahúsa snúi sér annað, ef margir góðir kostir eru í boði. Fékk fínan þorsk í hádeginu á 2.000 krónur, nákvæmlega rétt eldaðan, með rauðkálsþráðum og stöppu. Um tíðina hef ég löngum lofað Humarhúsið og get nú tekið þann þráð upp aftur. Humarhúsið var í dag eitt af beztu veitingahúsum landsins, þar sem fiskréttahús miðbæjarins skipa öll efstu sæti listans. Humarhúsið er einstætt, því að það hefur indæla nostalgíu í húsakynnum og öllum húsbúnaði.