Skrítin tík, pólitík.

Greinar

Nú má rifja upp þau orð kerlingar, að pólitíkin sé skrítin tík. Darraðardansinn um Blöndu og Helguvík hefur verið með þeim hætti, að tilviljun hefur fremur en rökrétt samhengi ráðið afstöðu og gerðum stjórnmálamanna.

Segja má, að Hjörleifur Guttormsson orkuráðherra hafi hefnt sín fyrir Helguvíkina á Framsóknarflokknum og Ólafi Jóhannessyni utanríkisráðherra með því að semja á bak við ríkisstjórnina við Norðanmenn um virkjun Blöndu.

Á ríkisstjórnarfundi á mánudagsmorgni báðu ráðherrar Framsóknarflokksins um frestun undirritunar samninga um Blöndu, þar til formleg afstaða þingflokks þeirra væri fengin. Vissu þeir ekki betur en að svo mundi verða.

Síðdegis hinn sama dag gekk Hjörleifur hins vegar frá samkomulagi við fimm af sex hreppum, sem hagsmuna hafa að gæta á virkjunarsvæðinu. Kom þingmönnum Framsóknarflokksins í opna skjöldu, að allt skyldi búið og gert án þeirra afskipta.

Reiðastur var Páll Pétursson, formaður þingflokks framsóknarmanna. Hann er einn svarnasti andstæðingur þeirrar virkjunartilhögunar, sem nú hefur verið staðfest með undirskriftum. Hann vandaði Hjörleifi ekki kveðjurnar:

“Það kom okkur að sjálfsögðu á óvart, að maðurinn gripi til þessa ráðs. Við framsóknarmenn erum að vísu að verða vanir því á þessum síðustu og verstu dögum, að Hjörleifi Guttormssyni detti óskynsamlegir hlutir í hug.”

Þar var Páll um leið að vísa til afskipta Hjörleifs af Helguvíkurmálinu, er hann, í tilraun til að tefja málið, bannaði Orkustofnun að sinni að standa við undirritaðan samning um boranir til jarðvegskönnunar.

Páll sagði þingflokk framsóknarmanna standa einhuga að baki Ólafs Jóhannessonar utanríkisráðherra í Helguvíkurmálinu, þar sem Ólafur hefur gengið berserksgang, vaðið yfir sveitarstjórnir og skipað sérstaka skipulagsnefnd fyrir sig.

Þetta er athyglisverður stuðningur, því að Páll hefur hingað til verið hinn mesti hernámsandstæðingur. Hann hefur að því leyti fremur átt samleið með Hjörleifi og Alþýðubandalaginu en utanríkisráðherra síns eigin flokks.

Þannig hefur spennan út af Blöndu milli Hjörleifs og Páls stuðlað að stuðningi hins síðarnefnda við framkvæmdir, sem hann hefði raunar átt að vera andvígur, ef mark væri tekið á fyrri ummælum hans um varnarmál.

Þetta er ekki eina skrítna tilviljunin í darraðardansinum. Merkilegast af öllu er, að Hjörleifur er ekki að hefna sín á Framsóknarflokknum með því að ota fram virkjun sinni og sinna heimamanna, Fljótsdalsvirkjun.

Nei, þvert á móti beitir Hjörleifur brögðum til að berja í gegn virkjun Pálma Jónssonar landbúnaðarráðherra og hans heimamanna við Blöndu, einmitt þá virkjun, sem var í samkeppni við heimavirkjun orkuráðherrans.

Hinn raunverulegi sigurvegari leiftursóknar Hjörleifs í Blöndumálinu er Pálmi Jónsson, sem er oddamaður virkjunarsinna í héraði, gegn virkjunarandstæðingum Páls. Enda sagði Páll um Hjörleif af þessu tilefni:

“Hann er látinn gera þetta. Pálmi Jónsson er eiginlega orðinn allt annað en landbúnaðarráðherra. Ég hygg, að Hjörleifur sé tæplega tekinn við embætti iðnaðarráðherra af Pálma síðan á Norðurlandaþinginu.”

Já, það er skrítin tík, þessi pólitík.

Jónas Kristjánsson

DV