Eitrun af Ísalsböli.

Greinar

Þegar kaupmaður reiknar álagningarþörf sína, þykir honum miður að þurfa að reikna birgðakostnað á tólf ára gömlu verði. Hann vill fá að meta endurnýjunarkostnað birgðanna á núgildandi verði, því verði, sem hann þarf nú að greiða.

Út frá þessu sjónarmiði er marklítið að tala um, að Ísal borgi niður gamalt orkuver við Búrfell og línur frá því á einhverju árabili. Miklu nær væri að miða slíkar greiðslur við kostnað orkuvers, sem reist væri á þessu ári.

Sama niðurstaða fæst með því að bera saman orkuverð til Ísals og til almennra notenda. Þegar Ísal tók til starfa, var verðmunurinn 81%, en er nú orðinn 413%. Þannig hefur orkan til Ísals smám saman orðið óhæfilega ódýr.

Í rauninni ætti orkuverðið til Ísals að fimmfaldast úr 6,5 mills í rúmlega 30 mills. Það er því í rauninni hófleg krafa Hjörleifs Guttormssonar orkuráðherra, að verðið þrefaldist í nýjum samningum við Ísal.

Ef verðið hækkaði í 20 mills, væri það orðið sambærilegt við meðalverð slíkrar orku í Bandaríkjunum. Við eðlilegar aðstæður á sæmilega afskrifað, en þó nýtízkulegt álver að geta greitt slíkt verð og komizt vel af.

Því miður eru litlar líkur á, að Svisslendingarnir, sem eiga Ísal, fáist til að ræða þetta af skynsemi. Þeir eru svo gírugir til fjár, að þeir taka upp dónaskap, ef amazt er við verðmyndun í viðskiptum þeirra við Ísal.

Með óbilgirninni hafa Svisslendingar spillt mjög fyrir stóriðjuþróun á Íslandi. Þeir hafa sáð til magnaðrar andstöðu, sem meðal annars lýsir sér í stóriðjuhatri í hverri skáldsögunni á fætur annarri.

Þetta hefur líka farið illa með þá, sem telja sér skylt að verja auðmagnið á sjálfvirkan hátt gegn meintum árásum kommúnista. Þannig hafa Morgunblaðið og þingflokkur sjálfstæðismanna orðið fyrir barðinu á Svisslendingunum.

Þar á ofan hefur Verzlunarráð Íslands bætt Ísalsbölinu á herðar verzlunarinnar sem þarf þó síst á slíku að halda á torsóttri leið að jafnrétti atvinnugreina. Verzlunarráðið virðist haldið eins konar sjálfseyðingarhvöt.

Þannig hafa Svisslendingarnir á ýmsan hátt eitrað út frá sér. Þeir hafa óbeint komið óorði á ýmsa hluti, sem við þörfnumst, á stóriðju, auðmagn, fjölþjóðlegt viðskiptasamstarf og meira að segja á frjálsa verzlun í landinu.

Hins vegar hafa vinnubrögð Hjörleifs Guttormssonar ekki leitt til þeirrar hræðslu útlendinga við íslenzk stjórnvöld, sem stuðningsmenn Svisslendinganna hafa gefið í skyn. Af íslenzkri hálfu hefur málið ekki verið ofkeyrt.

Álmenn í Noregi, Vestur-Þýzkalandi, Ítalíu, Japan og Bandaríkjunum hafa upp á síðkastið lýst áhuga á samstarfi við Íslendinga annars vegar um nýtt álver og hins vegar um yfirtöku og tvöföldun álversins í Straumsvík.

Ef þessi áhugi helzt, væri æskilegast að semja við Svisslendingana um kaup Íslendinga og nýrra erlendra aðila á Ísal, um leið og orkuverð yrði stórhækkað. Skiptir þá íslenzk meirihlutaeign mun minna máli en heiðarlegt samstarf.

Svissneski kaflinn í stóriðjusögu okkar hefur sumpart verið dapurlegur. Við þurfum að geta strikað yfir hann og snúið okkur ótrauð að hraðri uppbyggingu stóriðju, svo að börn okkar og barnabörn megi áfram vilja búa í landi þessu.

Jónas Kristjánsson

DV