Deila hart um herfangið.

Greinar

Steinullarmálið sýnir í hnotskurn, hvílíkur vandi getur fylgt tilraunum hins opinbera til að taka forustu í atvinnumálum. Það er eins og verið sé að úthluta herfangi, enda brjótast hagsmunaaðilarnir um fast.

Ekki hefur tekizt að sýna fram á, að steinullarverksmiðja sé svo mikilvæg, að skattgreiðendum beri að greiða verulegan þátt hlutafjárins. Arðsemisútreikningarnir eru í meira lagi vafasamir, svo sem flutningsdæmið sýnir.

Gert er ráð fyrir, að Ríkisskip flytji steinullina á einum fimmta hluta taxta, svo og að skipafélagið fái tvö ný skip og bætta hafnaraðstöðu. Enda hefur Ríkisskip neitað að skuldbinda sig til að standa við slíka útreikninga.

Mikilvægasta hættan, sem fylgir gæluverkefnum hins opinbera, svo sem þessu, er forréttindin, sem fylgja í kjölfarið, þegar illa gengur og stjórnmálamennirnir fara að reyna að bjarga mistökum sínum fyrir horn.

Þá eru settir tollar og kvótar á innflutning til að búa til falsaða markaðsstöðu fyrir innlenda gæludýrið. Afleiðingin er sú, að húsbyggjendur byggja dýrar en verið hefði, ef skattgreiðendur hefðu verið látnir í friði.

Hinn sami, nagandi kvíði fylgir öðrum gælufyrirtækjum, sem ríkið ætlar að eiga hlut að á kostnað skattgreiðenda. Verður saltveri og stálveri haldið í rekstri með því að búa til falsaða markaðsstöðu?

Það er ekki í þágu þjóðarhags að eyða fé og orku í að láta innlenda afurð koma í stað innfluttrar, ef hinir innlendu notendur verða fyrir bragðið að sæta hærra verði. Með slíku er aðeins verið að framleiða vandamál.

Við sjáum af Olíumöl hf., hvernig fer, þegar gæludýr hins opinbera fara flatt á uppsafnaðri heimsku stjórnmálamannanna, sem um fjalla. Slíkt leiðir einfaldlega til síhækkandi bakreikninga til skattgreiðenda.

Í steinullarmálinu má þó hrópa húrra fyrir, að ríkið hefur séð, að áætlanir um útflutning voru draumórar, þótt hinir forhertari stjórnmálamenn telji í lagi að veita útflutningsuppbætur, auðvitað á kostnað skattgreiðenda.

Deilurnar um steinullina fjalla þó hvorki um atriðin, sem hér hafa verið nefnd, né nokkuð það annað, sem máli skiptir. Þær eru eingöngu um, hvort Sauðárkrókur átti að fá herfangið fremur en Þorlákshöfn.

Hjörleifur Guttormsson iðnaðarráðherra hefur lagt Sauðárkrók til við ríkisstjórnina. Mikill meirihluti þingflokks framsóknarmanna hefur samþykkt að styðja þessa tillögu, þótt sumir gangi berserksgang á móti.

Athyglisvert og dæmigert er, að tillagan gerir ráð fyrir, að dúsu verði stungið upp í hinn sigraða og auðvitað á kostnað skattgreiðenda. Þeir eiga að borga herkostnaðinn af steinullarundirbúningi Sunnlendinga.

Það eru svo hugsjónir af þessu tagi, sem fá Suðurlandsþingmann Alþýðubandalagsins til að taka flokksbróðurinn, iðnaðarráðherrann, rækilega í bakaríið, meira að segja með duldum hótunum um að refsa honum í Helguvík!

Skattgreiðendur ættu að fylgjast vel með burtreiðum steinullarmálsins. Þær sýna vel, hvað stjórnmálamennirnir hafa gert að verksviði sínu. Það eru hatrammar deilur um skiptingu herfangsins frá skattgreiðendum.

Jónas Kristjánsson.

DV