Einangrun verndar spillingu.

Greinar

Við skulum ímynda okkur fjögurra dálka fyrirsögn á forsíðu hins brezka Guardian eða hins bandaríska New York Times: “Íslenzki samgönguráðherrann selur áætlunarflugleyfi til að bjarga pólitískum skjólstæðingi frá gjaldþroti.” Við skulum einnig ímynda okkur, að undir fyrirsögninni séu staðreyndir málsins raktar í smáatriðum, eins og þær hafa komið fram í okkar fjölmiðlum, allt niður í yfirlýsingar manna um, að þeir kannist ekki við fundi, sem þeir hafa setið. Við skulum loks ímynda okkur, að hjólgrimmir dálkahöfundar sömu blaða rektu sögu Steingríms Hermannssonar langt aftur fyrir hina átakanlegu þörungavinnslu, sem hann reisti á Reykhólum fyrir vestfirzka kjósendur sína. Við sjáum fyrir okkur niðurstöður dálkahöfundanna, þegar þeir berja í borðið og segja: “Hvers konar pakk er það, sem stjórnvöld okkar gera að bandamönnum sínum?” Engilsöxum er nefnilega afar illa við spillingu. Ef Steingrímur og aðrir stjórnmálamenn þessa lands ættu von á slíkum kjöldrætti í heimspressunni, myndu þeir ekki þora að haga sér eins og þeir gera. Í útlöndum vilja þeir líta út sem fínir menn, vammlausir þjóðarleiðtogar. Landsfeður okkar vilja halda virðingu sinni, þegar þeir hitta starfsbræður á þingum Norðurlandaráðs og annars staðar í heiminum. Þeir vilja ekki láta hía á sig sem eins konar þriðja heims pólitíkusa, rangeyga af spillingu. Hitt skiptir þá minna máli, hvað heimamenn halda, einfaldlega af því að hér ríkir ekki hinn sterki þjóðarímugustur á spillingu, sem ræður ferðinni hjá engilsöxum og Norðurlandabúum. Hér yppta menn bara öxlum. Menn brosa í kampinn og segja: “Já, hann Steingrímur. alltaf eru framsóknarmennirnir samir við sig. Þetta er þeirra siðferði.” En hina gamansömu gagnrýni vantar þá kjölfestu, er dugi til að stöðva sífellda endurtekningu spillingar. Vandinn felst í einangrun okkar og skorti á aðhaldi frá útlöndum. Straumur upplýsinga og skoðana rennur aðeins í aðra áttina. Við vitum um það, sem gerist í útlöndum, en útlendingar vita ekki um það, sem gerist hér á landi. Nágrannar okkar skilja ekki íslenzku, lesa ekki íslenzk blöð, hlusta ekki á íslenzkt útvarp og sjá ekki íslenzkt sjónvarp. Þeir vita þess vegna ekki, að hér á landi er fréttaflutningur og umræða um það, sem betur megi fara. Nágrannar okkar á Norðurlöndum virðast til dæmis halda, að hér sé eins konar norrænn þjóðgarður eða Árbæjarsafn, lítill og sætur Iðavöllur, þar sem menn sitji í heitum pottum og mæli fornnorræn ljóð af munni fram. Engilsaxar hafa ekki svona afvegaleidda mynd af okkur, ef þeir hafa þá nokkra. En þeir telja þó, að Ísland, sem eitt Norðurlanda, hljóti að vera áreiðanlegt land, traust velferðarríki vammlausra stjórnmálamanna. Í skjóli þessa misskilnings getur samgönguráðherra okkar veitt Arnarflugi leyfi til áætlunarflugs til Amsterdam, gegn því að félagið kaupi á uppsprengdu verði gagnslitlar eignir gjaldþrota framsóknarflugfélags. Ef starfsbræður hans í útlöndum læsu í blöðum sínum, hvað Steingrímur er í rauninni að gera, mundu þeir hugsa sig um tvisvar, áður en þeir heilsuðu honum. En það gerist ekki, – einangrunin verndar spillinguna.

Jónas Kristjánsson

DV