Ríkisstjórnin er brostin.

Greinar

Undarlegt er, að ríkisstjórnin er búin að fá leiða á sjálfri sér, áður en kjósendur eru búnir að fá leiða á henni. Venjubundin atburðarás á hnignunarskeiði ríkisstjórna hefur ruglazt og sumpart snúizt við.

Venjan er, að misjafnlega snemma á kjörtímabili fara kjósendur að skilja, að ekki er unnið af alvöru að efndum loforða og stjórnarsáttmála. Þeir snúast smám saman gegn ríkisstjórn og valda tæringu í samstarfinu.

Þegar viðreisnarstjórnin var við völd, þurfti raunar nokkur kjörtímabil til að snúa kjósendum gegn henni. En þá, eins og jafnan, fór samstarfið innan stjórnar ekki að bila, fyrr en fráhvarf kjósenda var orðið ráðherrum ljóst.

Síðasta skoðanakönnun bendir til, að ríkisstjórnin hafi enn traust meirihlutafylgi með þjóðinni, þótt saxazt hafi á meirihlutann í vetur. Slík staða ætti að vera ráðherrum hvatning til framhalds á samstöðu og sáttfýsi.

Í stað þess hafa ráðherrarnir tekið upp á að misbeita valdi til að reyna að hindra gerðir hver annars. Jafnframt velja þeir hver öðrum hin verstu orð í ræðu og riti. Ástandið er að verða verra en í síðustu vinstri stjórn.

Fyrst skipaði Svavar Gestsson nýja skipulagsnefnd fyrir Suðurnes 8. marz, þótt önnur væri þar fyrir. Vildi hann með því bregða fæti fyrir áform Ólafs Jóhannessonar um gerð olíuhafnar og olíugeyma í Helguvík fyrir herinn.

Síðar skipaði Ólafur Jóhannesson sérstaka bygginganefnd fyrir athafnasvæði hersins 15. marz til að koma í veg fyrir sókn Svavars. Segja má, að Ólafur hafi því ekki slegið fyrst, heldur verið að launa kinnhestinn.

Alvarlegasta uppákoman var millispil Hjörleifs Guttormssonar 12. marz, er hann skipaði Orkustofnun að efna ekki að sinni samning um jarðboranir í Helguvík. Þetta var einstæð tegund valdbeitingar í samskiptum ráðherra.

Fram að þessu hafði deilan snúizt um, hvort skipulagsráðherra eða varnamálaráðherra stjórnaði skipulagi varnarframkvæmda. Með framtaki Hjörleifs varð deilan að frjálsri fjölbragðaglímu allra ráðherra, sem skoðun vildu hafa.

Eftir hin þungu orð, sem fallið hafa á þingi og utan þings um gagnkvæma misbeitingu ráðherravalds til að spilla hver fyrir öðrum, er ljóst, að hinar innri forsendur samstarfsins eru brostnar, þótt formið haldi áfram.

Ráðherrar, sem sitja á svikráðum hver við annan, gera þjóðinni ógagn með því að halda formlegu lífi í ríkisstjórn, er hér eftir getur varla talizt annað en biðstjórn til að brúa bilið til nýrrar stjórnar eftir kosningar.

Úr því að töfrasproti Gunnars Thoroddsen megnar ekki lengur að halda ráðherrunum í álögum samstarfs og sáttfýsi, á hann nú að segja af sér fyrir sig og ráðuneytið og efna til nýrra þingkosninga á komandi sumri.

Auk þess sem afsögnin væri í réttu lýðræðislegu samhengi, ætti hún að geta orðið stjórnarflokkunum að töluverðu gagni. Þeir gætu gengið til kosninga, áður en innbyrðis erjur þeirra hafa leitt til fylgishruns.

Meirihlutafylgi ríkisstjórnarinnar getur aldrei haldizt lengi, eftir að ráðherrar eru farnir að haga sér eins og þeir hafa gert í þessum mánuði. Þeir, sem reka hníf inn í bak hver annars, munu smám saman fæla kjósendur á brott.

Jónas Kristjánsson

DV