Prent-Sjónvarp

Rannsóknir
Prent og sjónvarp

Inngangur:
Fyrsta málsgreinin er sú mikilvægasta í textanum og sú síðasta kemur næst á eftir. Hún þarf að vera tilbúin, áður en sagan er skrifuð. Sagan snýst um síðustu málsgreinina. Tilvist hennar auðveldar skrifin, gefur þeim stefnu.

Oft reynist best að byrja rannsóknafréttir eins og harðar fréttir: “Stærsti leigusalinn er líka sá versti.” Einnig er hægt að byrja á persónu, örsögu eða tímafrásögn. Lykill inngangsins er þó persónan, sem þræðir saman söguna.

1. Hvað þarf lesandinn fyrst og fremst að vita?
2. Hvað kom mér mest á óvart, þegar ég vann fréttina?
3. Hvar er spennan, baráttan, ágreiningurinn?

4. Hver er röddin við hæfi sögunnar?
5. Frá hvaða sjónarhóli er best að segja söguna?
6. Getur kjarni sögunnar falist í örsögu, mynd, máltæki, beinni tilvitnun?

Miðja:
Forðist tölur sem mest, setjið þær í gröf, setjið þær í skiljanlegt samhengi. Byggið miðjuna á leið aðalpersónunnar um ágreininginn til lausnarinnar, á breytingum á persónunni í þessu ferli, á innsæi, sem leiddi til lausnar.

Góð aðferð við miðju er að skrifa hana í röð af sviðsetningum, sem eru eins og kaflar í bók. Gott er að tengja milli samliggjandi sviðsetninga til að skapa óhindrað flæði textans. Breytileg lengd málsgreina er gott verkfæri, eykur læsi.

Sumir ritstjórar segja, að þeir sjái á augabragði, hverjir skrifi beztu sögurnar. Það eru þeir, sem hreyfa varirnar, þegar þeir slá textann inn. Meðferð á beinum og óbeinum tilvitnunum skiptir máli. Fylgjur, “foreshadowing” eru oft góðar.

Hrá tímaröð er oft besta leiðin til frásagnar. Notendur eiga auðvelt með að fylgja tímaröð. Hún eykur skilning á orsakasamhengi, auðveldar fólki að skilja “hvers vegna” og “hvað svo”.

Sjónarhóll og tónn:
Forðist sjónarhól og tón krossfarans. Best er að skrifa söguna innan úr höfði aðalpersónunnar. Sjónarhóll getur verið formlegur, samræðulegur, leikrænn, efahyggjulegur, ósvífinn, spádómslegur, hjartnæmur.

Endir:
Best er, að endirinn skilji eftir djúpar hugsanir og tilfinningar notandans án þess að prédika eða gefa álit. Endir má ekki leka niður. Góð aðferð er að hengja endann við innganginn á náttúrulegan hátt, ekki gervilegan hátt.

Gröf eru fátæklegri á Íslandi en við sjáum víða annars staðar. Í öðrum löndum er algengt, að sérstakir menn vinni eingöngu að gröfum og kortum á ristjórn. T.d. eru kort af vettvangi oft notuð í Bandaríkjunum.

Dagblað hefur mun meira pláss fyrir orð en sjónvarp og gefur kost á ítrekaðri skoðun hvenær sem er. Í sjónvarpi rekur hver sagan aðra, þær koma og fara. Áhorfandinn skiptir um stöð, ef ekki er haldið spennu í fréttunum.
Nú er sjónvarpefni geymt á vef.

Hálftíma fréttaþáttur í sjónvarpi er með svipuðum texta og tvær síður í dagblaði á Íslandi. Það er því mun meira pláss fyrir rannsóknablaðamennsku í dagblöðum heldur en í sjónvarpi. Dagblöð geta líka birt eindálka í eyður stórfrétta, sjónvarpið síður.

Erfiðara er að koma fyrir framhaldssögum í sjónvarpsfréttum. Dagblöð geta birt milliefni án mikils tilgangs nema til að brúa bil, en sjónvarp verður að hafa spennandi nýbreytni í hverri frétt. Sjónvarpið þarf líka að hafa nýtt myndefni við hverja birtingu.

Dagblaðssögur má klippa, dreifa og setja í safn. Sjónvarps og útvarpsmerkið kemur og fer. Í flestum tilvikum geymir fólk ekki það, sem það sér í sjónvarpinu. Aftur á móti eru rannsóknasögur í sjónvarpi oft þrungnar sterkari tilfinningum.

Rannsóknablaðamaður á prenti er nánast nafnlaus, þótt nafn hans eða upphafsstafir séu við söguna. Hann fer um borg og bý án þess að neinn þekki hann. Sjónvarpsfréttamaðurinn er hins vegar heimilisvinur, sem þekkist um allan bæ. Verulegur munur.

Viðtal óþekkts dagblaðsmanns er öðruvísi en viðtal þekkts sjónvarpsmanns. Hvor leið hefur sína kosti og galla. Þegar menn sjá sögu í sjónvarpi, fer traustið eftir persónu þess sem talar. Þegar menn lesa svipaða sögu, fer traustið eftir blaðinu, miðlinum.

Raunin er sú, að oftast byrja rannsóknasögur í dagblaði og sjónvarp tekur síðan um kvöldið upp meginþráð málsins, stundum út frá nýjum sjónarhóli. Þá sýnir sjónvarpið oft síðu úr dagblaðinu og vitnar til þess, sem þar stendur.

Stundum hafa blaðamenn á dagblaði og sjónvarpi samstarf um birtingu rannsóknar, þannig að dagblaðsmaðurinn skilur eftir hluta málsins til að gefa sjónvarpsmanni sérstakan fókus, sem er annar en sá upprunalegi.

Aðrir rannsóknablaðamenn skrifa bók um rannsókn sína, oft í kjölfar blaðaskrifa. Þá eru þeir ekki háðir plássi dagblaða og fréttatíma og geta breitt sig út um alla þætti málsins. En bókarútgáfa hefur ekki sömu nálægð í tíma, hlutir breytast á útgáfutímanum.

Tímarit koma þarna á milli, bæði í plássi og tíma. Mörg tímarit hafa birt góðar rannsóknasögur með miklum útfærslum í myndum og teiknivinnu. Vinnslutími tímarita er mun lengri en sjónvarps og dagblaða, en mun styttri en bókar.

Rannsóknablaðamennska hefur ekki verið mikið í útvarpi. Jafnvel fréttastöðvar hafa átt í erfiðleikum við að finna tíma frá dagbundnum fréttum til að taka langtímamál fyrir í rannsóknum. Samt á ekkert að vera þeim til fyrirstöðu í útvarpi.

Sjónvarpið sýnir myndir af málsaðilum og aðstæðum. Það getur sýnt eitt myndefni meðan sagt er frá öðru og þannig flutt söguna hratt, þegar lítill tími er til umráða. Frá sumu þarf raunar ekki að segja, það er nóg að sýna það.

Sama hlutverki geta myndir og grafík í dagblaði þjónað. Þær gefa tilefni til skoðunar. Oft er mikil vinna lögð í grafík, sem getur sagt sögu á auðveldari hátt en hægt er í hreinum texta. Fréttastofur á borð við Reuters senda frá sér mikið af flóknum gröfum.

Rannsóknir sjónvarps og dagblaða eru svipaðar, en framsetningin misjöfn. Myndir og grafík bæta söguna og setja fram sönnunargögn. Ekki má líta framhjá tímaritum, bókum og útvarpi sem fjölmiðlum fyrir rannsóknablaðamennsku.

Rannsóknablaðamaður falsar ekki myndefni frekar en hann falsar önnur skjöl, sem hann notar. Heiður hans sem blaðamanns og sjónvarpsstöðvarinnar er í veði. Þeir, sem harma fréttina, munu nota það til að varpa rýrð á þessa aðila. “Docudrama” er hafnað.

Dæmi um rannsóknablaðamensku: Sjónvarpsfrétt um ofbeldishneigðan geðsjúkling, sem fékk vinnu sem öryggisvörður hjá hverju fyrirtækinu á fætur öðru, framdi ofbeldi og myrti mann.

Málið tók ekki nema 5,5 mínútur í flutningi, þar á meðal 0,5 mínútur í kynningu akkerismanns. Engar myndir voru notaðar úr safni, heldur allar teknar í tilefni fréttarinnar. Yfirskrift málsins var: Vopnaður og hættulegur.

Vinnan við þessa frétta var dálítið öðruvísi en hún hefði verið fyrir dagblað. Minna var sóst eftir smáatriðum, af því að sagan varð að vera stutt. Blaðamenn náðu skjölum, töluðu við sérfræðinga og fórnarlömb og röðuðu málinu skipulega upp. Sértæk saga.

Meginvinnan fólst í að rekja feril mannsins í starfi hjá nokkrum öryggisfyrirtækjum, segja frá vandamálum, sem hann olli á hverjum stað, og hvernig honum tókst alltaf að fá nýja vinnu í öryggisvörslu, þrátt fyrir fortíðina. Almennum atriðum sleppt.

Dagblað mundi frekar gefa sér pláss til að fara úr því sértæka yfir í það almenna, til dæmis með tölfræði um útbreiðslu vandans, svo að lesendur geti áttað sig á, hversu þjóðfélagslega alvarlegur hann er.

Þótt stjórnir sjónvarpsstöðva hafi sumar lítinn áhuga á rannsóknablaðamennsku og vilji jafnvel bregða fæti fyrir hana, geta blaðamenn stundað hana á afmörkuðum sviðum, svo sem í neytendamálum, heilsumálum og í samskiptum sveitarfélags og ríkis.

Ástæðan fyrir tregðu sjónvarpsstöðva er, að ráðamenn þeirra telja, að auglýsendur vilji heldur vera innan um rólegt efni heldur en órólegt efni. Rannsóknir teljast vera frekar órólegt efni. Þetta getur skaðað rannsóknablaðamennsku.

Meiri áhugi er á rannsóknum í könnunarvikum, þegar áhorf er mælt. Þá vilja menn gjarna hafa rannsóknablaðamennsku, af því að reynslan sýnir, að hún hefur meira áhorf en annað efni stöðvanna. Er þá fréttaefnið mikið auglýst fyrirfram, ekki Öskubuska.

Netstöðvarnar hafa flestar fasta rannsóknaþætti. Elstur og þekktastur er 60 Minutes hjá CBS. Hver saga fær góðan tíma, oft 20 mínútur. Þótt hraði sögunnar sé mikill, er tími fyrir viðtöl, sem eru lengri en hljóðbiti, og fyrir útskýringar.

Sumt sjónvarpsefni er “slam bang”, sameinar aðferðafræði fréttatímarita við aðferðafræði gulu pressunnar. Í þeim hópi eru Current Affairs, American Journal, Inside Edition og Hard Copy. Þetta efni er stundum kallað “tabloid” nútímans.

Oft er beitt huldum myndavélum við að búa til þetta efni. Auglýsingarnar segja: “Hversu öruggur er uppáhalds skyndibitastaðurinn þinn. Þú færð að vita það á American Journal í kvöld og svarið kann að valda þér magatruflunum.”

Auglýsingalausu sjónvarpsstöðvarnar hafa líka rannsóknablaðamennsku. Útkoman er yfirleitt lengra og dýpra efni en á hinum stöðvunum og fjallar um mál, sem ekki er eins líklegt til skyndivinsælda eins og rannsóknarefni hinna stöðvanna.

Sjá nánar:
Brant Houston, Len Bruzzese & Steve Weinberg,
The Investigative Reporter’s Handbook
A Guide to Documents, Databases and Technologies
4th Edition 2002

Fair Use © Jónas Kristjánsson, 2008

Hlé