Hornsteinn í húfi.

Greinar

Hugsum okkur, að í Blaðamannafélagi Íslands yrði lagt til, að Árna Bergmann yrði vikið úr félaginu og Þjóðviljamönnum bannað að starfa með honum, af því að hann hafi lýst þeirri skoðun, að nóg væri að hafa einn mann á blaðinu í íþróttafréttum.

Auðvitað mundi slík tillaga ekki fá eitt einasta atkvæði í félaginu, enda er blaðamönnum ljóst, að ekki er í verkahring félags þeirra að hafa afskipti af skoðunum félagsmanna í þjóðfélagi, sem hefur skoðanafrelsi að hornsteini.

Hugsum okur, að kennara yrði vikið úr stéttarfélagi og kennurum bannað að starfa með honum, af því að hann hafi lýst þeirri skoðun, að allt í lagi væri að hafa 30 nemendur í bekk, þótt aðrir kennarar teldu 25 nemendur vera hámark.

Auðvitað mundi slík tillaga ekki ná fram að ganga í samtökum kennara, af því að einnig þar er mönnum ljóst, að einstaklingar geti og megi hafa aðra skoðun á málum en samtök þeirra hafa sem heild, án þess að slíkt varði útlegð úr starfi.

Hins vegar hafa flugumferðarstjórar í vanhugsaðri frekju látið sér detta í hug að reka mann úr stéttarfélagi og neita að vinna með honum, af því að hann hefur neytt þeirra mannréttinda að hafa sérstaka skoðun.

Þetta óviðfellda mál á að verða ýmsum aðilum í þjóðfélaginu tilefni til að taka afstöðu til þess og annarra slíkra mála, sem upp mundu koma, ef atlaga flugumferðarstjóra að sjálfsögðum lýðréttindum nær fram að ganga að fullu eða að hluta.

Hvað verður til dæmis um þá almennu reglu, sem hér á landi er um þegjandi samkomulag, að allir menn séu í stéttarfélagi og að bara eitt stéttarfélag starfi á hverju sviði? Er ekki verið að rjúfa þann frið í þjóðfélaginu?

Er ekki verið að stíga skref í þá átt, að menn raði sér í stéttarfélög eftir skoðunum, til dæmis stjórnmálaskoðunum, þannig að sjálfstæðismenn verði í einu félagi, alþýðubandalagsmenn í öðru og svo koll af kolli?

Er ekki líka verið að stíga skref í þá átt, að matsatriði sé, hvort einstaklingar séu í stéttarfélögum eða utan þeirra, til dæmis ef skoðanir þeirra fara ekki saman við ríkjandi skoðanir í því stéttarfélagi, sem þeir standa næst?

Stéttarfélögum í landinu ber siðferðileg skylda til að taka afstöðu til yfirgangs flugumferðarstjóra, sem í krafti aðstöðunnar við öryggisstörf ætla að taka þjóðfélagið í gíslingu til að kúga félagsmann fyrir að hafa eigin skoðanir.

Hugsanlega stendur næst Bandalagi starfsmanna ríkis og bæja að reyna að hafa vit fyrir ríkisstarfsmönnum á villigötum. En ekkert hefur sézt til ráðamanna bandalagsins, sem bendir til, að þeir hafi skilning á hornsteini sem þessum.

Þetta varðar einnig samtök á borð við Alþýðusamband Íslands. Það hlýtur einnig að verða að láta sig skipta, hvort vegið er að þeirri almennu reglu, að menn séu í stéttarfélögum, hvaða skoðanir sem þeir svo hafa á umdeildum atriðum.

Hvert svo sem siðferðisstigið reynist vera hjá heildarsamtökum stéttarfélaga, þá hvílir um síðir sú ábyrgð á ríkisvaldinu að koma í veg fyrir, að fram nái að ganga glæpir á borð við þann, sem flugumferðarstjórar eru að reyna að drýgja.

Ríkisvaldið hlýtur og verður fyrir hönd okkar allra að berjast með hnúum og hnefum gegn því, að samtök geti rutt til hliðar einum helzta hornsteini þjóðfélagsins, sjálfu skoðanafrelsinu. Til slíks höfum við einmitt ríkisvald.

Jónas Kristjánsson.

DV